- Advertisement -

Kannast ekki við „svívirðingar“ þingmanna

Ingvar Gíslason, fyrrum forystumaður Framsóknarflokksins, og fyrrverandi menntamálaráðherra, hefur skrifað um „svívirðingar“ nokkurra þingamanna um samþingmenn sína. Greinina alla er að finna í Fréttablaðinu í dag.

Ingvar kannast ekki við ámóta framferði, og sat hann lengi á Alþingi.

„Á þeim 30 þingum sem ég sat sem alþingismaður, ráðherra, og deildarforseti í mörg ár, þekkti ég engan karlmann, hvað þá konu, að það fólk gerði sér það til dægrastyttingar að svívirða samþingsmenn sína, og ausa úr sér klámi um konur og hæðast að fötlun fólks. Úr því að þessi ósköp hafa nú dunið yfir upp á síðkastið þá er það nýlunda þar sem nútíma mórallinn horfir framan í sjálfan sig. Eða hvað? Alþingismenn eru vitaskuld engir englar frekar en aðrir dauðlegir menn, og blaka ekki vængjum eins og hvítir mávar. En ég hef aldrei þekkt neitt annað á langri ævi en að alþingismenn kynnu mannasiði.

Hitt er annað mál að það er ekki almennings eins að láta sér þetta blöskra, þetta mál snertir Alþingi og alþingismenn umfram allt. Eysteinn Jónsson, sem lengst allra manna var forystumaður í Framsóknarflokknum meðan sá flokkur mátti sín nokkurs, sagði í mín eyru og fleiri að það væri „pólitísk nauðsyn“ að alþingismenn kynnu þá list að láta sér blöskra. Hann sagði líka við sama tækifæri: „Allir alþingismenn eru samverkamenn. Við skulum varast það að gera pólitíska andstæðinga að persónulegum fjandmönnum okkar.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: