„Við höfum í höndunum umsagnir um 35 milljarða kr. tilfærslu og skýringu sem byggist á því að skerða þurfi réttindi annarra til að standa undir útgjaldaaukningu ríkisins.“
Ingibjörg Isaksen Framsóknarflokki.
„Ég verð að lýsa vonbrigðum yfir því að ráðherra skuli ekki svara einfaldri spurningu um hvort frumvarpið feli hreinlega í sér eignaupptöku. Við höfum í höndunum umsagnir um 35 milljarða kr. tilfærslu og skýringu sem byggist á því að skerða þurfi réttindi annarra til að standa undir útgjaldaaukningu ríkisins,“ sagði ingibjörg Isaksen þingflokksformaður Framsóknar þegar hún deildi við Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra.
Ingibjörg hélt áfram:
„Þá er spurningin ekki hvort þetta gæti verið eignaupptaka heldur hreinlega hvort það hafi verið ætlunin. Ef það er vilji þessarar ríkisstjórnar að ryðja út lagafrumvörpum í nafni verkstjórnar, frumvörpum sem skerða lífeyrisréttindi verkafólks í beinni andstöðu við grunnréttindi fólks í landinu, þá er illa fyrir okkur komið. Ég spyr því að nýju: Telur hæstvirtur ráðherra að það sé í samræmi við jafnræði og 72. gr. stjórnarskrárinnar að gera kjarabætur hjá einum hópi með því að skerða áunnin réttindi verkafólks og eldri borgara?“
Þorbjörg Sigríður svaraði fyrir sig:
„Ég átta mig á því að stjórnarandstaðan hér er illa stemmd vegna þess hvernig mál eru hér að spilast með veiðigjöld. Það er auðvitað algerlega óþolandi að menn séu að leika sér að því að koma hingað upp og væna ráðherra ríkisstjórnarinnar um að brjóta stjórnarskrá vitandi vits. Þetta er bara slík óhæfa að það er með algerum ólíkindum. Þú ert væna ráðherra hér um að brjóta stjórnarskrá vitandi vits. Mig langar til að segja: Kanntu ekki að skammast þín? Kanntu ekki að skammast þín?“
Þórunn Sveinbjarnardóttir þingforseti greip inn í: „Forseti biður hæstvirtan ráðherra að gæta orða sinna. Forseti biður líka um að ræðumaður fái hljóð. Svo held ég að það væri ágætt að allir önduðu í kviðinn hér í þessum sal.“