- Advertisement -

Katrín afturkalli umboð ríkislögmanns

Settur ríkislögmaður lítur svo á, að hinir sýknuðu fyrrverandi sakborningar eigi ekki rétt á skaðabótum!

Marinó G. Njálsson skrifar fréttaskýringu:

Andri Árnason var settur ríkislögmaður til að koma fram fyrir hönd ríkisins í sáttanefnd/bótanefnd þar sem komast átti að niðurstöðu um skaðabætur til einstaklinga sem Hæstiréttur sýknaði á síðasta ári í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vildi ná sáttum um bætur vegna ranglætis sem sýknaðir sakborningar í málinu höfðu orðið fyrir. Frumkvæðið kom frá ríkisstjórninni og var aldrei neinn vafi á því hjá henni að hinir sýknuðu sakborningar ættu rétt á bótum.

Illa hefur gengið að ná sátt um þær skaðabætur sem viðkomandi (í sumum tilfellum erfingjar) áttu að fá. Nú er skýringin komin fram:

Þú gætir haft áhuga á þessum
Andri Árnasaon.
Þvert á vilja yfirmanna setts ríkislögmanns, þ.e. ríkisstjórnar Íslands, þá er það skoðun setts ríkislögmanns, að Guðjón hefði glatað rétti til bóta.

Settur ríkislögmaður lítur svo á, að hinir sýknuðu fyrrverandi sakborningar eigi ekki rétt á skaðabótum! Þetta segir hann hreint út í greinargerð sinni fyrir Héraðsdómi, eftir að einn hinna sýknuðu stefndi ríkinu til greiðslu skaðabóta. Svo vitnað sé í frétt Fréttablaðsins um málið:

„Ríkið hafnar öllum málatilbúnaði Guðjóns meðal annars með vísan til þess að dómkrafa hans sé fyrnd en að öðru leyti hafi Guðjón sjálfur stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir bótakröfur sínar á.“

Og orðrétt úr greinargerðinni:
„Telja verður að stefnandi hafi, með vísan til framangreinds, þolað frelsissviptingu vegna dóma sem hann hlaut árin 1977 og 1980 og hann var síðar sýknaður af með dómi Hæstaréttar í máli nr. 521/2017. Á hinn bóginn verður að telja að stefnandi hafi átt sök á því að hann var ranglega dæmdur. Með vísan til atvika hafi hann glatað rétti til bóta.“

Já, þið lásuð rétt: Þvert á vilja yfirmanna setts ríkislögmanns, þ.e. ríkisstjórnar Íslands, þá er það skoðun setts ríkislögmanns, að Guðjón hefði glatað rétt til bóta, þar sem hann bar sjálfur ábyrgð á því, að hann var þvingaður til að játa á sig glæp sem hann aldrei framdi. Glæp sem einstaklingur í Keflavík hafði ítrekað talað um þegar hann var drukkinn á heimili sínu, virtist þekkja vel og lýsti á sama hátt og kom fram í dómsorðum Hæstaréttar árið 1980, þegar fjórir ungir menn voru dæmdir fyrir morð sem ekki er einu sinni vitað að hafi átt sér stað. Þeir komu hins vegar ekki fram í fyllerísrausi Keflvíkingsins. Glæp sem reynt var að klína á svo kallaða Klúbbsmenn í samræmi við fyllerísraus Keflvíkingsins. En þegar það mistókst var glæpnum troðið upp á nokkra sakborninga sem fyrir rest voru sýknaðir af Hæstarétti 27. september 2018. Skelfilegast í þessu öllu er að tveir menn hurfu og ekki er vitað um afdrif þeirra. Þeir, sem dæmdir voru, hafa verið sýknaðir, en enginn áhugi virðist vera hjá yfirvöldum að leysa málin og í hvert sinn sem einhverjar vísbendingar koma fram, þá er eins og reynt sé að þagga niður í þeim sem kom með þær. Í staðinn ætlar settur ríkislögmaður að reyna að fá einn hinna sýknuðu dæmdan í annað sinn fyrir glæp sem hann framdi ekki.


Eðlilegast er að forsætisráðherra stigi inn í núna og afturkalli umboð Andra Árnasonar.

Til að kóróna allt er gerð krafa um að hinn sýknaði sakborningur greiði málskostnað.

Hafi settur ríkislögmaður meint eitthvað með sáttaboðinu sem lagt var fram 28. mars sl., þá hefði hann í sinni greinargerð fyrir hönd ríkisins átt að bjóða þá upphæð sem þar var lögð fram. Settur ríkislögmaður hefði átt að leggja fram rök fyrir þeirri upphæð sem þar var tilgreind, en ekki hefja ný sakamálaréttarhöld yfir manni, sem Hæstiréttur sýknaði fyrir tæpu ári. Efast ég um að settur ríkislögmaður hafi fengið fyrirmæli í skipunarbréfi að freista þess að rétta aftur í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, þegar hann var beðinn um að setjast í sáttanefndina/bótanefndina vegna vanhæfi ríkislögmanns. Það er samt ætlun hans.

Eðlilegast er að forsætisráðherra stigi inn í núna og afturkalli umboð Andra Árnasonar. Ég hef svo sem ekki séð skipunarbréf hans, en samkvæmt fréttum þá átti hann að sitja fyrir hönd ríkisins í sáttanefndinni/bótanefndinni. Honum misheppnaðist að ná sátt og þar með er hlutverki hans lokið. Að hann sé núna kominn á kaf í ný réttarhöld yfir hinum sýknaða einstaklingi hefur ekkert með sáttaviðræður að gera. Hann er því örugglega kominn út fyrir sitt umboð. Það sem meira er, að hann hefur gert sig vanhæfan til að leita sátta með því að halda því fram, að þrátt fyrir ásetning ríkisstjórnarinnar að ná sáttum, að hinn sýknaði sakborningur hafi glatað rétti sínum til bóta með því að koma ekki í veg fyrir að vera dæmdur! Þetta er með því vitlausasta sem ég hef heyrt.


ENGIN áþreifanleg sönnunargögn tengdu hina sýknuðu sakborninga við hina horfnu einstaklinga. ENGIN.

Verst í þessu öllu, er að settur ríkislögmaður gerir lítið úr vinnu endurupptökunefndar og setts ríkissaksóknara vegna endurupptökunnar, Davíðs Þórs Björgvinssonar. Settur ríkislögmaður heldur því hreint og beint fram, að vinna þessara aðila hafi bara verið upp á punt. Að umfjallanir í skýrslum endurupptökunefndar hafi bara verið ósannaðar ávirðingar „gagnvart lögreglu og dómstólum“ og hann hafnar „ásökunum um meinta refsiverða háttsemi lögreglu, ákæruvalds og dómstóla“. Var það hluti af umboði hans að ganga þvert gegn niðurstöðu endurupptökunefndar? Hann gleymir hins vegar alveg, að ENGIN áþreifanleg sönnunargögn tengdu hina sýknuðu sakborninga við hina horfnu einstaklinga. ENGIN. Allt var byggt á getgátum rannsóknarteymis lögreglunnar sem varð að finna gerendur til að lægja öldur í íslensku samfélagi og ekki síst bjarga andliti hins þýska Karl Schütz.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: