- Advertisement -

Kjörstjórar eyðileggja atkvæði kjósenda

Helga Vala Helgadóttir:
Þetta er að mínu mati með öllu óásættanlegt og þarfnast ríkrar umræðu í samfélaginu.

Helga Vala Helgadóttir Samfylkingu skrifar eftirtektarverða grein. Hún upplýsir að kjörstjórar hafi eyðilagt utankjörfunaratkvæði með því einu að kvitta ekki á atkvæðin. Hér fer grein Helgu Völu:

„Það er fjölmargt við þetta norðvesturmál sem mig langar að ræða en ætla að bíða örlítið með það.

Hins vegar vil ég ræða þennan vinkil sem fjallað er um í greinargerð kjörbréfanefndar, eða framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu, þekkingu þeirra sem með slíka framkvæmd fara, fagmennsku, hlutverk stjórnvalda við kennslu á slíkri framkvæmd og hvers kyns fræðslu til umboðsmanna, starfsfólks kjörstjórna og talningarfólks.

Tilefni þessara orða í greinargerð nefndarinnar er sú staðreynd að stór bunki utankjörfundaratkvæða var metinn ógildur af yfirkjörstjórn í RVK suður.

Í greinargerð segir m.a. „Nefndin telur það alvarlegt að fyrir komi að utankjörfundaratkvæði komi ekki til greina í alþingiskosningum af ástæðum sem ekki eru á ábyrgð kjósanda sjálfs.

Kosningarréttur er grundvallarréttur borgara og kjósendur verða að geta treyst því að atkvæði sem þeir greiða í kosningum komist til skila með réttum hætti og séu tekin til greina. Áréttar nefndin af því tilefni mikilvægi þess að tryggt verði sem best að kjörstjórar og starfsfólk þeirra sem kemur að utankjörfundaratkvæðagreiðslu hafi hlotið næga þjálfun og hafi til þess viðeigandi þekkingu, sbr. álit kjörbréfanefndar 2017. Jafnframt telur nefndin æskilegt að sérstaklega verði hugað að því að koma á bættu og samræmdu verklagi við meðferð kjörgagna við utankjörfundaratkvæðagreiðslur samhliða gildistöku nýrra kosningalaga. Vísar nefndin um það til leiðbeiningarhlutverks landskjörstjórnar annars vegar og starfshóps sem falið var að taka til skoðunar atkvæðagreiðslu utan kjörfundar með ákvæði til bráðabirgða VII. í lögum nr. 112/2021 hins vegar…“

Tilefni þessara orða í greinargerð nefndarinnar er sú staðreynd að stór bunki utankjörfundaratkvæða var metinn ógildur af yfirkjörstjórn í RVK suður vegna þess að á þau vantaði undirskrift kjörstjóra – þ.e. þess sem annaðist framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu fyrir hönd stjórnvalda.

Þetta er að mínu mati með öllu óásættanlegt og þarfnast ríkrar umræðu í samfélaginu. Vert er að benda á eins og kemur fram hér að ofan að kjörbréfanefnd á síðasta kjörtímabili nefndi þennan skort á þekkingu hjá starfsfólki sem annast framkvæmd lýðræðislegra kosninga hér á landi og það bara verða stjórnvöld að taka alvarlega og bæta úr fyrir sveitastjórnarkosningarnar næsta vor.

Meira síðar – en hér er umrædd greinargerð sem nú er dundað við að lesa spjaldanna á milli… allar 91 síðurnar.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: