- Advertisement -

Kolbeinn: „Ég er einfaldur maður“

„Ég er einfaldur maður eins og oft hefur komið fram og vil gjarnan fá að vera í stóru línunum,“ sagði Kolbeinn Óttarsson Proppe, í þingræðu.

„Hvað mig sjálfan snertir held ég að það skili enda meiru en að kafa ofan í einstaka liði í fjármálastefnu og spyrja út í krónur og aura. Mig langar að spyrja hæstvirtan ráðherra um ekki minni hluti en utanríkisstefnu Íslands og kannski ekki síst, þó að ég viti að hún sé ekki á málefnasviði hæstvirts ráðherra, út í þjóðaröryggisstefnu. Ég veit þó að hæstvirtur ráðherra, sem fer með utanríkismál þjóðarinnar, kemur þar mjög nærri.“

Þingmaðurinn hélt áfram: „Einn af þeim lærdómum sem ég dreg af því herrans ári 2020 er að besta fjárfestingin í öryggismálum þjóðarinnar felist í virkri þátttöku í alþjóðastofnunum á hinu borgaralega sviði, á heilbrigðissviði — ég er að tala um Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, Sameinuðu þjóðirnar, norrænt samstarf o.s.frv. — frekar en í þessari úreltu, gamaldags hugsun sem tröllríður allt of mörgum húsum víða um heim, þ.e. hernaðarsamvinnu. Ég gæti bætt hér inn netöryggismálum og fleiru slíku. Erum við ekki að komast kannski á þann tímapunkt, forseti, að við þurfum að nýta tækifærin þegar lífið kastar þeim framan í okkur til að endurmeta eldgamlar og úreltar hugsjónir og horfa upp á nýtt á hlutina eins og í þessu tilviki?“

Guðlaugur Þór Þórðarson svaraði Kolbeini og sagði meðal annars: „Stjórnvöld allra þjóðríkja hafa þá skyldu að vernda líf og frelsi þegna sinna. Ég vildi að heimurinn væri allt öðruvísi en hann er, en hann er bara svona.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: