- Advertisement -

Krefjast réttinda sem manneskjur

Það er sorglegt að þannig fólk skuli manna ríkisstjórnina.

Gunnar Smári skrifar:

Að baki fundi flóttamanna á Austurvelli var krafa um fund með ráðamönnum. Þeirri kröfu svöruðu stjórnvöld með ofbeldi lögreglunnar.

Í fundarboðinu var staða mótmælenda skýrðs svo:

„Fyrir meira en tveimur vikum sendum við bréf þar sem Rauði kross Íslands var milliliður og báðum um fund með dómsmálaráðherra, forsætisráðherra, velferðarráðherra og Útlendingastofnun. Á fundinum viljum við ræða þær ómannúðlegu aðstæður sem við hælisleitendur búum við og gera grein fyrir fimm kröfum sem við höfum sett fram:

1. Ekki fleiri brottvísanir
2. Efnismeðferð fyrir alla. Niður með Dyflinnarreglugerðina
3. Réttur til að vinna
4. Jafn aðgangur að heilbrigðisþjónustu
5. Lokun einangruðu flóttamannabúðanna á Ásbrú

Í stað þess að svara beiðni okkar um fund hefur Sigríður Á. Andersen tilkynnt að hún vilji herða enn frekar á Dyflinarreglugerðinni og koma í veg fyrir að flóttafólk geti fengið fjölskyldusameiningu. Auk þess vill hún fella niður tveggja vikna kærufrest sem hælisleitendur eiga nú rétt á. Allar þessar breytingar myndu án efa gera hælisferlið enn óbærilegra en það er nú þegar.

Á síðustu vikum höfum við staðið sameinuð og látið raddir okkar heyrast til þess að krefjast réttinda okkar sem manneskjur á þessari jörðu.“

Það hljóta allir að skilja hversu veik staða flóttafólksins er og fundið til með fólkinu þótt fæst okkar geti skilið örvæntingu þeirra, blessunarlega höfum við fæst upplifað svipaða stöðu. Auðvitað er til fólk sem er svo fullt haturs að það vill ekki virða viðlits þá sem veikar standa, er ekki einu sinni til í að hlýða á kröfur og sögur þeirra sem veikast standa í samfélaginu. En þannig eru fæstir. Það er því sorglegt að akkúrat þannig fólk skuli manna ríkisstjórnina.

Sverrir Agnarsson skrifar texta með myndinni sem prýðir þessa frétt: Andstæðingur lögreglunnar á myndinni var sonur minn Ómar – EKKI að mótmæla, EKKI að tjalda og EKKI með pappa heldur myndavél. Hann fékk hnefahögg í brjóstkassann og piparúða í andlitið. Það þarf ekki að taka afstöðu til mótmælanna til að draga í efa að svona óstöðugir gæjar séu í rétta jobbinu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: