- Advertisement -

Kvótakerfið notað til félagslegra úrræða

„Ég tel mikilvægt að fiskveiðistjórnunarkerfið sé til þess fallið að verja byggðirnar, það er að segja að ekki verði til staðar sú hætta að atvinnustig heilu landshlutanna hrynji vegna tilfæringa í greininni. Ég veit að sjávarútvegsráðherrann leggur mikið upp úr við endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins. Það er mikilvægt fyrir samfélagið allt ekki bara þær byggðir sem yrðu illa úti, því allt helst þetta í hendur.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í gær, þegar hann var spurður hvort slíkt komi til greina vegna þess vanda sem steðjar að Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri sökum þess að Vísir hf. hefur afráðið að loka starfstöðvum sínum í þessum byggðarlögum hyggst flytja alla starfsemi til Grindavíkur, þar sem höfuðstöðvar fyrirtækisins eru.

Verður gripið til ráðstafana til að lina fyrirsjáanlegt högg þessara byggðarlaga?

„Við fylgjumst mjög náið með stöðu mála í byggðarlögunum. Verið er að ræða ákveðnar mótvægisaðgerðir en best yrði ef fyrirtækið færi ekki frá þessum stöðum, allavega ekki strax.“

Er reynt að koma í veg fyrir að forráðamenn Vísi fylgi eftir ákvörðun sinni um að hætta starfsemi á þessum stöðum?

„Það yrði best, en þetta er einkafyrirtæki og við getum ekki skipað þeim fyrir.“

Gerir þú þér vonir um að hægt verði að breyta fyrri ákvörðun?

„Ég ætla hvorki að draga úr eða auka væntingar um þetta. En í öllu falli er ljóst að ef þetta verður, verður það mikið högg fyrir þessi byggðarlög að það getur kallað á sérstakt inngrip stjórnvalda.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: