- Advertisement -

Laun sjómanna skerðast séu þeir á nýjum skipum

Veita á afslátt af veipigjöldum vegna þess að útgerðir hafa endurnýjað báta sína og skip. Ekki má gleymast að sjómenn, sem starfa á nýjum eða nýlegum bátum, missa tíu prósent af sínum launum. Þeir eru látnir styrkja útgerðirnar.

„Að hluta til má segja að sjómenn séu að fjármagna ný skip útgerðanna úr eigin vasa. Þetta er 10 prósenta lækkun á launum fyrstu sjö árin,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, um ákvæðið sem aftur er komið í umræðuna hjá sjómönnum vegna áðurnefndrar aukningar á nýjum skipum undanfarið. En hvernig fékkst þetta umdeilda ákvæði í gegn og finnst sjómönnum þetta eðlilegt?“

Þessi frétt er sótt á dv.is. Meira úr fréttinni:

„Nei. Þeim finnst þetta ekki eðlilegt og ekki mér heldur. En þetta fór í gegn sem hluti af kjaradómi sem settur var á sjómenn árið 2001,“ segir Valmundur en útgerðarmenn hafi barist fyrir því að fá þetta nýsmíðaálag inn á sínum tíma.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Valmundur segir að rökin fyrir þessu ákvæði á sínum tíma hafi verið að með nýjum skipum myndu afköstin aukast.
„Þá gætu menn haft hærra kaup en það yrði samt lækkað og menn yrðu jafnstæðir. Sem er auðvitað fáránlegt því það er kvóti. Það eru ekki afköst sem skipta máli heldur kvótinn sem viðkomandi útgerð á sem ræður laununum.“

Valmundur segir að sjómenn njóti aðeins góðs af þessum auknu afköstum ef það er til nóg af kvóta. „Og hægt að róa alltaf. Þá má segja það, en þetta er jafnvitlaust fyrir því. Fyrir utan að útgerðin er að skila gígantískum hagnaði og það er ekki þörf fyrir þetta lengur, að okkar mati. Á þessum árum frá 2001 og fram að hruni, tala nú ekki um árin 2005–2007, þegar dollarinn var kominn í 60-kallinn, þá skilaði þetta engu og útgerðin var að reka sig með tapi. En núna, þegar útgerðin skilar hagnaði upp á tugi milljarða á ári, þá sjá sjómenn ekki hvers vegna þetta ákvæði er inni. Við erum búnir að krefjast þess að það verði tekið af, en það er ekki til umræðu af þeirra hálfu. Það endar bara í átökum ef það heldur áfram sem horfir.“

Eignast ekkert í skipinu

Til að skilja hvað þessi 10 prósenta eftirgjöf sjómanna þýðir mætti setja upp einfalt, en þó ekki tæmandi, reiknidæmi til glöggvunar. Ef við gefum okkur að á nýju skipi sé 15 manna áhöfn þar sem hásetahluturinn er 15 milljónir á ári þá er hver og einn að verða af 1,5 milljónum á ári vegna þessa. Þessi áhöfn væri þá búin að láta tæpar 160 milljónir upp í hið nýja skip á sjö árum. Ef tekið er með í reikninginn að skipstjóri, stýrimenn og yfirmenn eru með meira en einn hlut þá er þessi upphæð miklu hærri, að sögn Valmundar.

„Ég veit dæmi af tveimur skipum, sem eru smíðuð á sama tíma og eru alveg eins. Á sjö árum hafa áhafnir þessara skipa líklega skilað til útgerðar 10–12 prósentum af smíðaverðinu. En þeir fá samt engan hlut í útgerðinni. Sem er svolítið skrýtið, það væri kannski í lagi að hafa þetta inni ef menn fengju kannski smá hlut eða þannig. En svona er þetta. Þetta er ákvæði sem við erum mjög ósáttir við. Það hafa komið inn einhverjar leiðréttingar en þær eru ekki stórvægilegar. Þetta er bara þannig að þetta ákvæði þýðir að sjómenn gefa eftir 10 prósent af sínum launum, fyrstu sjö árin eftir að skipin koma ný til landsins. Útgerðin fær 10 prósenta afslátt af launum.“

Valmundur segir að á móti komi að launakerfi sjómanna sé allt öðruvísi uppbyggt en annars staðar í þjóðfélaginu þar sem þeir fái hlut af aflaverðmæti.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: