- Advertisement -

Launahækkanir: Þingmenn 70%, aldraðir 23,8%!

„Það hefur verið farið á svig við þetta lagaákvæði og níðst á öldruðum og öryrkjum í kjaramálum.“ „Allt var rangt, sem haft var eftir ráðherranum.“

Á bloggsíðu Björgvins Guðmundssonar, gudmundsson.blog.is, má lesa þetta:

„Lífeyrir aldraðra og öryrkja hefur hækkað miklu minna en laun undanfarin ár. Lífeyrir hefur dregist aftur úr í launaþróuninni enda þótt tilskilið sé í lögum, að lífeyrir fylgi launaþróun. Það hefur verið farið á svig við þetta lagaákvæði og níðst á öldruðum og öryrkjum í kjaramálum. Það er því alrangt sem haft er eftir fjármálaráðherra um þetta efni í DV fyrir skömmu. En þar var fullyrt, að aldraðir og öryrkjar hefðu fengið meiri hækkanir en aðrir launahópar. Engar tölur voru nefndar í þeirri grein og því erfitt að henda reiður á það hvað maðurinn var að fara. En þetta voru allt rangfærslur. Allt var rangt, sem haft var eftir ráðherranum.

 Á tímabilinu 2015 til 2016, bæði ár meðtalin, hækkuðu laun þingmanna um 70%. En lífeyrir hækkaði aðeins um 23,8. Laun þingmanna hækkuðu um 450.000 kr. En lífeyrir hækkði aðeins um 46 þús kr hjá giftum ellilífeyrisþegum og sambúðarfólki. Kjararáð hækkaði laun alþingismanna þrisvar sinnum á einu ári 2015 til 2016. Þingfararkaup hækkaði um tæplega 70%. Á kjördag 2016 hækkaði Kjararáð þingfararkaup alþingismanna um tæp 45 prósent, þ.e. um 338.254 krónur á mánuði. Mánaðarlaun alþingismanna eru eftir það 1.101.194 krónur á mánuði.

Í nóvember 2015 tók Kjararáð ákvörðun um að hækka laun skjólstæðinga sinna afturvirkt, frá 1. mars 2015. Þingfararkaup hækkaði þá um 9,3% og fór úr 651.446 krónum í 712 þúsund krónur. Þingfararkaupið hækkaði svo aftur frá og með 1. júní það ár um 7,15% og fór í 762.940 krónur með 45% hækkuninni hækkaði kaupið um 338.254 kr og fór í 1,1 milljón kr.

Ef litið er á hækkun kaups láglaunafólks í samanburði við hækkun lífeyris aldraðra og öryrkja verður svipað upp á teningnum: Lágmarkslaun hækkuðu miklu meira en lífeyrir. Á tímabilinu 2015-2018 hækkuðu lágmarkslaun um 40%. Sem fyrr segir hækkaði lífeyrir aðeins um 23,8%. Lágmarkslaun hækkuðu um 14,5% 14. maí 2015 eða um 31 þús. kr á mánuði og fóru í 245 þús á mánuði en alls hækkuðu lágmarkslaun um 40% á næstu 3 árum þ.e. til 2018 og fóru í 300 þús á mánuði.

Það,sem skiptir þó mestu máli er, að stjórnmálamenn halda lífeyri niðri við fátæktarmörk, svo ekki er unnt að lifa af honum ( 239 þús. á mánuði hjá giftum öldruðum).

Framangreindar staðreyndir leiða í ljós, að það hefur verið níðst á öldruðum og öryrkjum í kjaramálum og er gert enn. Þar hefur engin breyting orðið á þó „róttæki sósíalistaflokkurinn“ hafi gengið í lið með íhaldi og framsókn!“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: