- Advertisement -

Leigjanda í hjólastól var vísað á götuna

Á meðan situr þessi ríkisstjórn hjá og reynir að telja fátæku fólki trú um það að hér drjúpi smjör af hverju strái.

Inga Sæland.

„Í dag er fólk að missa heimili sín. Í dag sofa ungir foreldrar með börnin sín úti í bíl, ungbörn í bílnum. Þau eiga í engin hús að venda. Í gær var gamall maður borinn út af heimili sínu ásamt syni sínum sem er í hjólastól og þegar hann spurði hvert hann ætti að fara, hvar hann gæti átt heima, var svarið: Fáðu þér hótel eða farðu í gistiskýli,“ sagði Inga Sæland á Alþingi fyrir skömmu.

„Gistiskýli sem eru ætluð fyrir fólk sem býr við alkóhólisma og fíknivanda. Svona er Ísland í dag. Á meðan situr þessi ríkisstjórn hjá og reynir að telja fátæku fólki trú um það að hér drjúpi smjör af hverju strái. Hvernig er hægt að koma fram fyrir alþjóð og reyna að telja fátæku fólki trú um að það hafi það gott? Þessi ríkisstjórn hefur gjörsamlega stungið öllum sínum tólf hausum í sandinn og gerir akkúrat ekkert í því að reyna að laga aðstæðurnar sem fólk býr við í dag sem er gjörsamlega að bugast,“ sagði Inga.

„Einstaklingur auglýsti litla íbúð til leigu. Innan tveggja tíma var hann búinn að fá 200 umsóknir. Hann var búinn að tala við fullt af fólki; grátandi fólki, hrópandi fólki, hótandi fólki, fólki sem vildi ekki lifa lengur. Svona er Ísland í dag. Í dag mun ég mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um húsaleigu þar sem ég mun fara fram á leigubremsu auk þess að reyna að auka réttindi leigjenda.“

„Við getum ekki gert annað en sýnt 100% vantraust gagnvart stjórnvöldum sem loka öllum dyrum og gluggum og snúa blinda auganu að þeirri örbirgð og þeirri skelfingu sem ríkir á meðal tugþúsunda samlanda þeirra á Íslandi í dag,“ sagði Inga Sæland.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: