- Advertisement -

Lestrarhátíðin Tími fyrir sögu er hafin

Lestrarhátíð í Bókmenntaborg hófst í gær í þriðja sinn og stendur hún allan október með ýmis konar dagskrá. Hátíðin í ár er tileinkuð sögum og sem fyrr er borgin í sviðsljósinu. Nafn hátíðarinnar er Tími fyrir sögu og er heitinu ætlað að koma þeim skilaboðum á framfæri að oftast getum við gefið okkur tíma fyrir sögu. Kringlan veitir Lestrarhátíð skjól fyrir veðri og vindum núna í október og verður hægt að lesa sögur í ýmsum myndum og gerðum á hinum mörgum stöðum í verslunarmiðstöðinni.

Skólarnir munu sömuleiðis fá að kynnast sögunum og eitthvað ferðast sögur á milli þeirra. Ef hringt er í þjónustuver Reykjavíkurborgar í október munu hringjendur geta hlýtt á örsögur meðan beðið er eftir svari þjónustufulltrúa og hafa skáldin Kristín Ómarsdóttir og Óskar Árni Óskarsson lesið upp nokkrar af sögum sínum í þeim tilgangi.

Í Nestisboxinu á vef Bókmenntaborgarinnar er svo hægt að lesa ýmsar sögur en ný örsaga verður birt þar á hverjum degi. Smásagnasafnið Eins og Reykjavík var gefið út 1. október en Þórarinn Eldjárn hefur valið sögurnar í bókina í tilefni hátíðarinnar. Safnið inniheldur 26 sögur sem allar eiga það sameiginlegt að tengjast Reykjavík með einum eða öðrum hætti. Bókin, sem kemur út í rafbókarformi, er gefin út af eBókum og er hægt að næla sér í ókeypis eintak á vef þeirra til og með 15. október.

Sjá meira um lestrarhátíðina hér á vef hátíðarinnar.

 

 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: