- Advertisement -

Segja líf ríkisstjórnarinnar vera undir

„Ég hef áhyggjur af afstöðu og málflutningi þingmanna og hæstvirtra ráðherra Vinstri grænna.“

Jón Gunnarsson.

Alþingi Félagarnir Jón Gunnarsson og Ásmundur Friðriksson stigu báðir í pontu á Alþingi, í síðustu viku, til að ræða útlendingamálin. Þeir komu víða við í stuttum ræðum sínum. Kannski er merkilegast hvaða hug þeir bera til þingflokks Vinstri grænna.

Byrjum á Jóni:

„Það var vissulega áhugavert að fylgjast með umræðu um útlendingamál hér í þinginu í gærkvöldi og sérstaklega að bera það saman við umræðuna á síðasta ári, fyrir u.þ.b. ári. Mest áberandi í því var auðvitað sá mikli viðsnúningur sem hefur orðið á málflutningi háttvirtra þingmanna úr Viðreisn og svo sem aumlegar skýringar á breyttri afstöðu. Hjá háttvirtum þingmönnum Samfylkingarinnar kemur fram augljós ágreiningur innan flokksins og verður fróðlegt að fylgjast með því á næstu vikum hvernig afstaða þeirra verður til þessa mikilvæga máls sem er fram komið,“ sagði Jón í upphafi ræðu sinnar.

Ég óttast tafaleiki…

„En dropinn holar steininn og við í Sjálfstæðisflokknum höfum aldrei gefist upp við að ná fram breytingum á þessu máli. Það tókst í fyrra. Nú erum við í kafla tvö og við fögnum auðvitað stuðningi þeirra þingmanna sem tjáðu sig hér og bjóðum þá velkomna um borð á vegferð Sjálfstæðisflokksins í málaflokki útlendingamála.

Ég hef áhyggjur af afstöðu og málflutningi þingmanna og hæstvirtra ráðherra Vinstri grænna. Ég heyri að forsætisráðherra segir mikilvægt að nálgast Norðurlöndin í regluverki. Það er sama nálgun sem við Sjálfstæðismenn erum með, en á sama tíma talar félagsmálaráðherra um það að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins séu stöðugt að stilla Vinstri grænum upp við vegg í þessum mikilvæga málaflokki. Ég óttast tafaleiki, virðulegur forseti, við vinnslu málsins. Það er að mínu mati ekki í boði að ekki verði brugðist við því ástandi núna með því að breyta lögunum á þessu kjörtímabili, á þessu þingi. Það er ekki svigrúm, að mínu mati, til frekari málamiðlana um þetta mál. Þetta eru allt saman mjög brýnar breytingar og í einhverjum tilfellum þyrfti eflaust að ganga lengra,“ sagði Jón Gunnarsson.

„Við ráðum ekki við þennan fjölda. Innviðir bresta vegna álags.“

Ásmundur Friðriksson.

Þá snúum við okkur að Ásmundi Friðrikssyni:

„Í gær var hér í þessum sal undarleg uppákoma þegar dómsmálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um breytingu á útlendingalögum. Mótmælandi af erlendu bergi brotinn klifraði yfir svalahandrið á áheyrendapöllunum þannig að þingverðir, lögregla og Jón Gunnarsson þurftu að skerast í leikinn. Fyrir utan þingið hafa Palestínumenn mótmælt meintu aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda í málefnum Palestínu. Einkennilegt hvað það fólk er vanþakklátt fyrir gestrisni Íslendinga. Það er auðvitað mikilvægt að halda því til haga að Ísland hefur tekið á móti fleiri Palestínumönnum en nokkurt annað land Norðurlandanna þrátt fyrir fámenni okkar,“ sagði Ásmundur og hélt áfram:

Það gengur ekki…

„Virðulegur forseti. Ég vil gera það að umfjöllunarefni mínu hér hversu mikilvægt það er að löggjafinn geti starfað óáreittur. Það gengur ekki að þingmenn verði fyrir aðkasti á leið í og úr vinnu eins og m.a. hefur verið fjallað um í fjölmiðlum að undanförnu. Það gengur ekki að gera þurfi hlé á þingfundi þegar verið er að mæla fyrir nauðsynlegri og tímabærri lagabreytingu á útlendingalögum til þess að girða fyrir séríslenskar reglur og samræma löggjöfina okkar hinum Norðurlöndunum. Við ráðum ekki við þennan fjölda. Innviðir bresta vegna álags. Á sama tíma og við verjum meiri peningum í málaflokkinn eykst óánægjan og gremjan. Þær breytingar sem nú eru lagðar fram á lögum um útlendinga verða að ná fram. Ef þingmeirihlutinn hefur ekki þrek til þess er hann að dæma sig úr leik.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: