- Advertisement -

Lífeyrissjóðir hafa lítið (kannski ekkert) lært

Lífeyrissjóðir eru enn í dag að elta ævintýramenn í viðskiptum þeirra.

Gunnar Smári skrifar:

Allra handa, sem rekur Gray line-rúturnar, tapaði hálfum milljarði í fyrra. Lífeyrissjóðirnir keyptu helmingshlut í Allra handa í árslok 2015 þegar rekstur rútufyrritækja hafði gengið vel í fáein ár, sem einkenndust af mikilli fjölgun ferðamanna og miklum kaupmætti þeirra vegna lágs gengis krónunnar. Þegar krónan styrktist dró úr viðskiptum og vexti, þegar ferðamönnum hætti að fjölga jafn ört og áður, krónan styrktist enn og samkeppni harðnaði (Bus4u hafa t.d. sótt hart fram) dró enn meir úr vextinum og þegar ferðamönnum tók að fækka á þessu ári má reikna með að tapið hafi vaxið enn meira.

Árið sem lífeyrissjóðir borguðu stofnendum Allra handa mikið fé fyrir helmingshlut í fyrirtækinu skilaði það 253 m.kr. hagnaði. Strax árið eftir versnaði staðan, 2016 var fyrirtækið rekið með 54 m.kr. tapi. Og kreppan í ferðaþjónustunni rétt búin að banka á dyrnar. Árið 2017 var tapið orðið 195 m.kr. og í fyrra var það komið upp í 517m.kr. Og miðað við versnandi stöðu á markaðnum er ekkert sem bendir til að fyrirtæki geti skilað hagnaði í ár eða yfirleitt í árferði sem ekki er að öllu leyti eins og rútufyrirtækjum hentar best.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Leið stjórnenda og hluthafa Allra handa er að sameinast öðrum, stækka og reyna að ná sterkari stöðu á markaði. Nú er unnið að sameiningu við Reykjavík Sightseeing sem er sérhæfir sig í skoðanaferðum út frá Reykjavík en rekur líka flugrútuna AirPort Direct. Samkeppniseftirlitið er með þennan samruna til skoðunar. Reykjavík Sightseeing er mun minna fyrirtæki en Allra handa, veltir um 610 m.kr. á móti um 4.000 m.kr. hjá Allra handa. En Reykjavík Sightseeing er líka í viðvarandi taprekstri. samkvæmt upplýsingum sem fyrirtækin gáfu í vor, var tap þess 2016-17 um 169 m.kr. þegar Allra handa var rekið með 249 m.kr. tapi. Það skal tekið fram að þótt tveir mínusar séu einn plús í stærðfræði, þá hefur engum tekist að sanna það í viðskiptum. Sameining fyrirtækja í krónískum taprekstri leiðir ákaflega sjaldan til að viðsnúnings í rekstri.

Þótt lífeyrissjóðirnir hafi lagt þessum fyrirtækjum til aukið eigið fé eftir að þeir urðu hluthafar fór upphafleg fjárfesting þeirra í vasa eigenda rútufyrirtækjanna.

Horn III, sjóður sem Landsbankinn rekur fyrir fé lífeyrissjóða fyrst og fremst, keypti meirihlutann í Reykjavík Sightseeing 2017. Þessi sameining tapfyrirtækja í eigu lífeyrissjóðanna er því drifin áfram af væntingum sjóðanna að takast megi að skrúfa fyrir tapið og vernda eign sjóðanna. Þeir hafa nú þegar fært eign sína í Allra handa niður um hálfan milljarð í fyrra og sýnt er að þeir munu einnig gera það í ár. Sömu sögu er líklega að segja um Reykjavík Sightseeing. Og reyndar Kynnisferðir einnig, en lífeyrissjóðirnir eru líka stórir eigendur þar.

Þótt lífeyrissjóðirnir hafi lagt þessum fyrirtækjum til aukið eigið fé eftir að þeir urðu hluthafar fór upphafleg fjárfesting þeirra í vasa eigenda rútufyrirtækjanna. Eftir að hafa rekið fyrirtækin í blússandi uppsveiflu í örfá ár seldu þeir lífeyrissjóðunum hlut í fyrirtækjunum fyrir marga milljarða króna, ef rútufyrirtækin eru öll tekin saman. Og hlógu alla leið í bankann, eins og sagt er. Þegar kreppti að, eins og sýnilegt var, sitja lífeyrisjsóðirnir uppi með tapið og fyrirtæki sem hægt er að reka í blússandi góðæri en ómögulegt er að halda á floti þegar á bjátar, þegar allt er ekki eins og rútufyrirtækjunum hentar best.

Þessi saga sýnir að lífeyrissjóðirnir, þínir sjóðir, hafa ekkert lært eftir að síðasta bóla brenndi upp ¼ af lífeyri landsmanna. Þeir eru enn í dag að elta ævintýramenn í viðskiptum þeirra, veðja á sjónhverfingarhagnað og færa þessum ævintýramönnum gríðarlegt ríkidæmi. Og sitja svo uppi með tapið. Þú situr uppi með tapið.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: