- Advertisement -

Lífeyrissjóðir: Óánægja magnast. Málsókn undirbúin

Eldri borgarar, sjóðfélagar, hafa verið sviknir.

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Flestir halda, að þeir sem greitt hafa í lífeyrissjóð alla sína 
starfsævi, eigi áhyggjulaust ævikvöld. Svo einfalt er það ekki. Þeir þurfa margir að hafa áhyggjur af fjármálum sínum þrátt fyrir greiðslur í lífeyrissjóði alla sína starfsævi!

Í fyrsta lagi er það svo, að lífeyrissjóðirnir eru mjög misjafnir, missterkir. Ófaglærðir verkamenn fá mjög lítinn lífeyri úr lífeyrissjóði og það sama á raunar einnig við um marga faglærða starfsmenn, t.d. suma iðnaðarmenn. Margir fyrrnefndra lífeyrissjóða greiða ekki nema 50-100 þúsund krónur á mánuði til umræddra launþega. Það er lítið eftir starfsævina.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þeir, sem fá ekki meira úr lífeyrissjóði, eru lítið betur settir en þeir, sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð. Ástæða þess er sú, að ríkið skerðir lífeyri þessara eldri borgara hjá almannatryggingum vegna þess að þeir fá lífeyri úr lífeyrissjóði. Einnig er þessi lífeyrir skattlagður. Þetta er ígildi eignaupptöku. Þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir var launþegum sagt, að lífeyrissjóðirnir yrðu hrein viðbót við almannatryggingar.

Alþýðusamband Íslands gaf yfirlýsingu 1969, þar sem hið sama var fullyrt. Í trausti þessa fóru launamenn að greiða í lífeyrissjóðina og töldu, að þeir myndu njóta alls síns lífeyris, þegar þeir kæmust á eftirlaun. En það var nú öðru nær. Eldri borgarar, sjóðfélagar, hafa verið sviknir. Þeir fá ekki að njóta lífeyris síns að fullu.

Óánægja sjóðfélaga í lífeyrissjóðum vegna skerðinganna, sem þeir sæta, hefur verið að magnast undanfarin ár.

Lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna eru með ríkistryggingu. Þeir eru yfirleitt sterkari en sjóðirnir á almennum markaði. Í bankahruninu urðu margir lífeyrissjóðir á frjálsum markaði fyrir áföllum (töpum). Þessu var velt yfir á sjóðfélaga. Slíkum áföllum sem lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna urðu fyrir, var hins vegar ekki velt yfir á sjóðfélaga. Auk þess hefur að sjálfsögu verið greitt misjafnlega mikið í lífeyrissjóðina eftir því hvað sjóðfélagar hafa haft mikið í laun.

Óánægja sjóðfélaga í lífeyrissjóðum vegna skerðinganna, sem þeir sæta, hefur verið að magnast undanfarin ár. Nú er svo komið, að alvarleg hætta er á, að launþegar, sjóðfélagar, neiti að greiða í lífeyrissjóð, ef skerðingum verður ekki hætt.

FEB í Rvk undirbýr málsókn á hendur ríkinu vegna skerðinganna. Ég er eindregið fylgjandi því, að það verði gert. En það þarf að undirbúa mál mjög vel. Ég vann að undirbúningi málsóknar, þegar ég var formaður kjaranefndar FEB í Rvk og hafði þá tvo lögfræðinga mér til aðstoðar. Þeir lögðu mikla áherslu á vandaðan undirbúning málsóknar. Ég legg áherslu á það.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: