- Advertisement -

Lífskjör verkafólk versna enn: VANTAR 50 ÞÚS. KR. TIL AÐ LIFA ÚT MÁNUÐINN

Árið 2013 greiddi þessi verkamaður 15,7 prósent tekna sinna í skatta og gjöld. Í ár er þetta hlutfall komið í 18,8 prósent.

Gunnar Smári skrifar:

Valið stendur á milli vinnuþrælkunar, að neita sér um heimili eða safna skuldum.

Ef við fylgjum hafnarverkamanni í Reykjavík, sem er á leigumarkaði, frá ársbyrjun 2013 og út árið 2019 kemur í ljós að ráðstöfunartekjur hans eftir skatta, gjöld og húsnæðiskostnað eru nú lægri en fyrir sex árum þrátt fyrir langt góðæristímabil. Góðærið fór fram hjá láglaunafólki og rann í vasa einhverra allt annarra. Og því miður er ekkert sem bendir til að nýgerðir kjarasamningar muni leiðrétta þetta óréttlæti.

Miðlungs og hærri laun hafa hækkuðu miklum mun meira en lægstu launin.

Þegar reiknaðar eru tekjur almenns hafnarverkamanns í 9. launaflokk Eflingar sem vinnur tíu eftirvinnustundir á mánuði og fær umsamda orlofs- og desemberuppbót (og eingreiðslu vegna samninganna í apríl síðastliðnum) kemur í ljós að á föstu verðlagi hafa heildarlaun hans hækkað um 23,6 prósent á þessu sex ára tímabili. 2/3 hlutar þeirra hækkunar komu á fyrstu tveimur árum samninganna frá 2015, þegar saman fóru nokkrar launahækkanir og lág verðbólga.

Á þessu sex ára tímabili hækkaði launavísitala Hagstofunnar um tæp 32,7 prósent á föstu verðlagi, svo augljóst er að láglaunafólk hefur fengið minni leiðréttingu eftir kjaraskerðinguna eftir Hrun heldur en launafólk á miðlungs eða hærri launum. Hafnarverkamaðurinn okkar fær í ár að meðaltali tæplega 340 þús. kr. í föst laun plús tíu tíma yfirvinnu en ætti að fá 25 þús. kr. meira ef laun hans hefðu fylgt almennri launaþróun í landinu. Verkamaðurinn hélt í við almenna launaþróun frá 2013 til 2016, en eftir það hefur hann setið eftir. Miðlungs og hærri laun hafa hækkuðu miklum mun meira en lægstu launin undir lok samningsins frá 2015 og nýgerðir kjarasamningar náði ekki að vinna það upp að neinu leyti.

En áður en verkamaðurinn getur ráðstafað tekjum sínum eru teknir af honum skattar og gjöld. Af þeim tæplega 65 þús. kr. sem hafnarverkamaðurinn okkar fékk í hækkun launa tók ríkissjóður, lífeyrissjóður og verkalýðsfélagið hans tæplega 24 þús. kr. til sín, rúmlega 1/3 af hækkuninni. Eftir sátu rétt rúmlega 41 þús. kr. í launaumslagið. Þetta þýðir að 23,6 prósent hækkun heildarlauna varð 18,8 prósent hækkun útborgaðra launa. Hærri tekjur leiða til hærri skatta og verkamaðurinn fær aðeins 63 prósent af hækkuninni í vasann.

Árið 2013 greiddi þessi verkamaður 15,7 prósent tekna sinna í skatta og gjöld. Í ár er þetta hlutfall komið í 18,8 prósent. Þrátt fyrir að verkamaðurinn fái ekki laun sem duga honum fyrir framfærslu þá tekur ríkissjóður stærri sneið af tekjum hans.

Hagur verkamanns hefur versnað sem nemur 2.371 kr. Ekki batnað, heldur versnað.

Frá 2013 hefur húsaleiga hækkað langt umfram verðlag. Ef við látum verkamanninn okkar leigja 65 fermetra íbúð í Reykjavík á meðalverði, sem er í dag um 200 þús. kr., og látum húsaleiguna sveiflast eftir vísitölu húsaleigu yfir tímabilið kemur í ljós að meðalverð þessara íbúðar var á núvirði 145 þús. kr. árið 2013 en verður 202 þús. kr. í ár. Hækkunin nemur 39 prósent umfram almennar verðlagsbreytingar; verkamaðurinn borgar 57 þús. kr. meira í húsaleigu í ár en hann gerði 2013. Og þar með er allur ávinningur hans af hækkun launa gufaður upp. Þær launahækkanir sem hann fékk á síðustu sex árum fóru annars vegar í ríkissjóð og hins vegar til leigusalans. Og meira til: Árið 2013 hafði verkamaðurinn okkar 91.128 kr. á mánuði á núvirði eftir skatta, gjöld og húsaleigu en í ár hefur hann 88.757 kr. á mánuði. Hagur hans hefur versnað sem nemur 2.371 kr. Ekki batnað, heldur versnað.

Á þessu tímabili batnaði hagur verkamannsins aðeins tvö ár, 2016 og 2017. Þá fór saman ágætar launahækkanir, lág verðbólga og hækkun húsnæðisbóta þegar það kerfi tók við af húsaleigubótum. Ráðstöfunartekjur verkamannsins okkar, eftir skatta, gjöld og nettó-húsaleigu, hækkuðu því upp í 96.453 kr. á núvirði að meðaltali á árinu 2017. Síðan þá hefur verðbólga aukist, húsnæðisbæturnar ekki haldið í við hækkun húsaleigu og launahækkanir ekki náð að vega upp versnandi lífskjör verkafólks. Í ár mun verkamaðurinn okkar því hafa 7.696 kr. minna eftir skatta, gjöld og húsaleigu en reyndin var að meðaltali árið 2017. Frá 2017 til 2019 þarf verkamaður á leigumarkaði að kyngja 8 prósent kjaraskerðingu vegna lítilla launahækkana, hækkandi húsaleigu, hrörnandi húsnæðisbóta og aukinnar dýrtíðar. Þessi staða er mikill áfellisdómur yfir nýgerðum kjarasamningum, sem gerðir voru þegar mikill meirihluti þjóðarinnar stóð að baki kröfunni um sérstakar kjarabætur til hinna lægst launuðu.

Á fyrsta ári samningsins býr hafnarverkamaður við 8 prósent lægri lífskjör en hann varð að sætta sig við fyrir tveimur árum, lífskjör sem öllum var ljóst að var ekki mönnum bjóðandi.

En þótt kjör verkamannsins okkar hafi versnað hafa þau aldrei verið góð. Miðað við framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara voru ráðstöfunartekjur hans eftir skatta, gjöld og húsaleigu 65,7 prósent af því sem hann þurfti til að geta framfleytt sér af 42,5 stunda vinnuviku. Þegar best lét, árið 2017, var þetta hlutfall komið í 69,5 prósent en í ár er það aftur fallið niður og verður í 64,0 prósentum, ef verðbólguspár ganga eftir. Þetta er náttúrlega ömurleg staða; að vinnandi fólk skuli vera dæmt til fátæktar, að því skorti um 50 þús. kr. í hverjum mánuði til að geta framfleytt sér.

Og hvað gerir fólk? Sum vinna einfaldlega meira; taka alla yfirvinnu sem býðst og ráða sig aukavinnu annars staðar, eru í tveimur eða þremur vinnum. Sum neita sér um að búa í mannsæmandi húsnæði; leigja herbergi eða búa inn á vinum eða vandamönnum og eiga sér því í raun ekki heimili þótt þau séu í fullri vinnu. Sum vilja trúa að þetta ástand sé aðeins tímabundið og taka lán til að geta framfleytt sér, safna skuldum sem bera háa vexti. Valið stendur því á milli vinnuþrælkunar, að neita sér um heimili eða safna skuldum. Það er raunveruleiki verkafólks í dag. Og ekkert í nýgerðum kjarasamningum mun breyta þessu. Á fyrsta ári samningsins býr hafnarverkamaður við 8 prósent lægri lífskjör en hann varð að sætta sig við fyrir tveimur árum, lífskjör sem öllum var ljóst að var ekki mönnum bjóðandi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: