- Advertisement -

Litlar framfarir orðið hjá Svandísi

…að hækkunin hefði að einhverju leyti verið fengin með því að skera niður kostnað við hjúkrunarheimili og öldrunarþjónustu.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Heilbrigðisráðherra hrósaði sér af því um daginn, að hafa aukið framlag til Landspítalans um 12% á þremur árum. Ég benti á í pósti, að þessi 12% vógu kannski ekki eins mikið og ráðherra vildi meina því þjóðinni hefði fjölgað og þeim sem þyrfti hjúkrunarþjónustu hefði fjölgað. Mig grunaði ekki þá, að hækkunin hefði að einhverju leyti verið fengin með því að skera niður kostnað við hjúkrunarheimili og öldrunarþjónustu.

Í gær steig fram bæjarstjórinn á Akureyri fram og sagði bæinn íhuga að skila rekstri öldrunarheimila aftur til ríkisins, vegna þess að það hallaði svo mikið á bæinn varðandi fjármögnun rekstursins. Hún upplýsti einnig að þetta ætti við rekstur öldrunarheimila víða um land.

Í dag er löng fréttaskýring hjá RÚV (https://www.ruv.is/…/logregla-kollud-a-hjukrunarheimili-veg…) um vanda einkarekinna hjúkrunarheimila hafi verið „leystur“ með því að lækka samningsbundnargreiðslur og draga úr þjónustustigi með því að fækka fagfólki. Nýr þjónustuaðili er kominn hjá sumum þeirra, þ.e. lögregla, en þurft hefur að kalla hana til vegna heilabilaðra einstaklinga, þegar skortur hefur verið á mönnun og heimilin hafa „ekki tök á því að sinna einstaklingum með því starfsfólki sem þar er“.

Til að gera illt verra fyrir Landspítalann, þá bitnar niðurskurður á þjónustu á hjúkrunarheimilunum á Landspítalanum, því einstaklingar eru núna sendir þangað til umönnunar, þar sem hjúkrunarheimilin hafa ekki lengur úrræðin hjá sér lengur. Ég er viss um að þetta lítur vel út í excel-skjali, en þetta er bilað.

Ég held að eftirfarandi ummæli Helgu Hannesdóttur, yfirlæknis á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund og Mörk hjúkrunarheimili, rammi þennan vanda inn:
„En það má segja, sem mér finnst svolítið dæmigert fyrir íslenska stjórnsýslu, þetta er hvergi rætt, það er aldrei samið um það, það er ekki hugað að því að það þurfi meiri mannskap eða peninga til að fylgja þessum verkefnum heldur alltaf gleðin að þarna er hægt að halda Landspítalanum í járngreipum og færa vandamálin yfir á hjúkrunarheimili.“

Nú er ekki svo, að vandamálið sé nýtt. Þetta var rætt þegar Ingibjörg Pálmadóttir var heilbrigðisráðherra 1995-2001, þegar Guðmundur Árni Stefánsson gegndi stöðunni á undan henni, á árum kringum hrun þegar Guðlaugur Þór Þórðarson var heilbrigðisráðherra, líka þegar Álfheiður Ingadóttir, Guðbjartur Hannesson og Kristján Þór Júlíusson fóru með þennan málaflokk. Núna hefur Svandís Svavarsdóttir tekið við hinni heitu kartöflu og litlar framfarir virðast verða. Á þessum tíma voru fjármálaráðherrar nánast alltaf úr Sjálfstæðisflokknum, fyrir utan þessi fjögur ár sem flokkurinn var ekki í ríkisstjórn. Ætli það sé ástæðan fyrir því að ástandið sé svona?

Greinina birti Marinó á Facebooksíðu sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: