Af hverju sættir hún sig þá við að flokkur hennar fái ekki greitt fyrir árið í ár? Hvað er þá að vanbúnaði?
Hildur Sverrisdóttir.
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Ingu Sæland um reikningsskil Flokks fólksins og styrkveitingar til hans.
Jæja, orðaskipti þeirra Hildar og Ingu voru um margt skemmtileg. Hildur hefur leikinn eftir að hafa talaði aðeins um lög um stjórnmálasamtök sagði hún:
„Það er því fullljóst að umrædd krafa laganna um skráningu er ekki bara eitthvert formsatriði, frú forseti, heldur mikilvægur öryggisventill fyrir starfsemi stjórnmálaflokka og lýðræðislega stjórnarhætti. Því vil ég spyrja hæstvirtan félags- og húsnæðismálaráðherra í fyrsta lagi: Hvaða málefnalegu ástæður liggja að baki því að flokkurinn hélt ekki landsfund á árunum 2022–2024 þegar allir aðrir stjórnmálaflokkar gátu það og það gerðu? Í öðru lagi vil ég spyrja hvort fyrir liggi hjá hinu opinbera upplýsingar um flokkseiningar Flokks fólksins og hlutverk þeirra.“
Inga steig í pontu og sagði:

Við í Flokki fólksins höldum landsfund nákvæmlega þegar okkur sýnist.
„Ég þakka háttvirtum þingmanni Hildi Sverrisdóttur hjartanlega fyrir hinn mikla áhuga sem hún hefur á Flokki fólksins. Við getum alltaf tekið á móti nýjum félögum, sérstaklega þeim sem halda að við þurfum á aðstoð að halda til að geta rekið stjórnmálaflokkinn Flokk fólksins af einhverju viti.
Ég þakka fyrirspurnina og vil í fyrsta lagi segja að það er alrangt að Flokkur fólksins hafi ekki uppfyllt öll meginskilyrði fyrir því að hljóta styrk á hverju ári miðað við þingstyrk sinn eins og aðrir stjórnmálaflokkar hafa fengið. Eitt meginskilyrðið er einmitt að fá fulltrúa réttkjörna á Alþingi sem Flokkur fólksins hefur fengið allt frá alþingiskosningunum 2017 og jók þingstyrk sinn allverulega í síðustu kosningum, sælla minninga fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem skilað hefur Flokki fólksins í ríkisstjórn.
Í öðru lagi hefur Flokkur fólksins skila nákvæmum og löglega endurskoðuðum ársreikningum til Ríkisendurskoðunar sem hefur samþykkt þá reikninga skilyrðislaust þar sem öll fjármál Flokks fólksins eru uppi á borðum, þar sem engu er leynt og öllum er aðgengilegt. Allt frá því að lögum var breytt 2021 og 2022 hefur Flokkur fólksins sem stjórnmálaflokkur sótt um og fengið styrki frá ríkissjóði í samræmi við þingstyrk sinn, rétt eins og aðrir flokkar sem margir hverjir höfðu t.d. ekki áttað sig á reglunni um skráninguna. Fjármálaráðuneytið sem sá um greiðslu styrkjanna 2023 og 2024 gerði aldrei neinar athugasemdir við umsóknir flokksins eða benti á að þar vantaði eitthvað upp á að skilyrðum væri fullnægt. Starfsmenn flokksins urðu þess hins vegar áskynja í febrúar í fyrra að sennilega væri flokkurinn ekki rétt skráður hjá fyrirtækjaskrá og ársreikningaskrá og þegar flokkurinn óskaði eftir breytingum á skráningu kom í ljós að það dugði ekki félaginu að óska bara eftir breytingu stjórnar heldur þurfti landsfundur að koma til. Hvað lýtur að því hvenær Flokkur fólksins heldur landsfund sinn, sem að jafnaði á að vera þriðja hvert ár, kemur það bara akkúrat engum öðrum stjórnmálaflokkum við. Við í Flokki fólksins höldum landsfund nákvæmlega þegar okkur sýnist. Næsti landsfundur verður næstkomandi laugardag og ég býð bara alla velkomna sem langar til að skoða hið fallega innra starf og hið frábæra starf Flokks fólksins, koma og vera velkomin og þiggja með okkur kaffi og croissant og sjá hvað við erum frábær.“
Hildur átti næsta leik:
…ég endurtek að eru frekar skýrar…
„Ég þakka hæstvirtum ráðherra fyrir svarið þó að mér hafi nú þótt það bæði rýrt og ekki rétt. Það er bara í stuttu máli hægt að segja að það er ekki um nein meginskilyrða að ræða. Þessi skilyrði eru þrjú og þau eru frekar skýr og það má ekki sleppa neinu þeirra. Það liggur beinast við að spyrja: Ef þetta er viðhorf hæstvirts ráðherra, af hverju sættir hún sig þá við að flokkur hennar fái ekki greitt fyrir árið í ár? Hvað er þá að vanbúnaði?
Ég vil í minni síðari fyrirspurn spyrja hæstvirtan félags- og húsnæðismálaráðherra hvort hún tilkynnti eða gaf það í skyn við hæstvirtan fjármála- og efnahagsráðherra að flokkur hennar myndi ekki endurgreiða styrki þá sem flokkur hennar fékk greidda í trássi við reglur þær sem ég reifaði hér áðan, og ég endurtek að eru frekar skýrar, og það þrátt fyrir að krafa þess efnis myndi berast frá fjármálaráðuneytinu.“
Þá er komið að lokasvarri Ingu Sæland:
„Ég þakka hjartanlega háttvirtum þingmanni fyrir síðari fyrirspurn sem lyktar óneitanlega af hrútspungafýlunni sem flæðir úr Hádegismóum. Þær eru alveg með ólíkindum dylgjurnar sem hér eru settar fram. Það er með hreinum ólíkindum að þurfa að sitja undir svona dylgjum sem eru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Meginandi laganna felur það í sér að það þurfi að uppfylla það að vera stjórnmálaflokkur, það þurfi að uppfylla það að vera með kjörna fulltrúa. Það þarf að uppfylla það að vera sem sagt, eins og við erum, með fulltrúa á Alþingi Íslendinga. Ég veit ekki eiginlega hvað háttvirtum þingmanni gengur til. En það væri kannski betra að það kæmi fram síðar. Hún getur fengið kannski kunningja sinn, Jón Steinar Gunnlaugsson, til að skrifa pistil um það.“
Hildur kallaði úr sal: „Getur ráðherra ekki bara svarað fyrirspurninni.“
Svar Ingu akti áhuga fleiri þingmanna sem kölluðu á Ingu, sem steig úr pontu.