- Advertisement -

Lýsti yfir vantrausti á Haraldi en mælti samt með honum við dómsmálaráðherra

Þau gerðu samning. Haraldur Johannessen og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sagði á Alþingi í dag að Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hafi mælt með að Haraldur Johannessen yrði ráðinn til sérverkefna í dómsmálaráðuneytinu. Áður hafði Sigríður Björk lýst yfir vantrausti á Haraldi.

„Þá má ég til með að vísa í viðtal við lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins sem tók undir það sjónarmið mitt að mikilvægt væri að nýta reynslu ríkislögreglustjóra. Þó að hún hafi verið ein af þeim sem studdu vantrauststillögu á ríkislögreglustjóra sá hún ekkert því til fyrirstöðu að nýta þekkingu hans á lögreglunni, hann hefur t.d. víðtæka þekkingu á alþjóðamálum, innan lögreglunnar þar, og það er kannski ekki sú þekking sem hefur skapað þau vandkvæði eða það vantraust sem myndaðist fyrr í vetur,“ sagði ráðherrann.

Helga Vala hafði spurt svo: „Telur hún heppilegt að einstaklingur sem hvorki nýtur trausts átta af níu lögreglustjórum á Íslandi né Landssambands lögreglumanna leiði stefnumótunarvinnu um framtíðarskipulag löggæslu á landinu? Seinni spurningin er hvort hún telji meðalhóf og jafnræði hafa ríkt við ákvarðanatöku sína er hún samþykkti nærri 40 millj. kr. útgjöld skattgreiðenda til handa þessum einstaka embættismanni.“

… svona samningar eru umdeilanlegir…

„Við erum með mann sem var skipaður aftur í febrúar 2018 og á því mikið eftir af sínum tíma. Hann hefur gríðarlega langan starfsaldur og þegar lagaramminn er þessi og samningur um starfslok embættismanns er á grundvelli lagaramma sem tryggir embættismönnum mjög sterka réttarstöðu tel ég að þessi samningur hafi verið rétta skrefið og er ánægð með niðurstöðuna. Ég veit þó og þekki að svona samningar eru umdeilanlegir og þessi er það líka. Að sama skapi tel ég að það eigi að vera undantekning en ekki regla að gera slíka samninga,“ sagði Áslaug Arna í einu af svörum sínum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: