- Advertisement -

Má endurskoða Alþingi?

Getur verið að það þurfi að endurskoða innviði Alþingis.

Margrét S. Þórólfsdóttir skrifar:

Það er orðið þannig í okkar samfélagi að fólk talar og talar, malar og malar, skrifar og skrifar um hvað er að í okkar samfélagi og jafnvel kemur með lausnir við þeim. En ráðamenn þjóðarinnar inni á Alþingi eru ekki að hlusta og lifa í sínum fílabeinsturni. Síðan korter fyrir kosningar eru loforðin sett á silfurfatið og okkur er boðið að þefa af þeim og sumir jafnframt borða af fatinu teiknaðan mat sem engan veginn stenst það sem lofað var. Núna í tvö kjörtímabil hafa aðalkosninga loforðið verið um að rétta það ranglæti sem öryrkjar búa við og flestir ef ekki allir flokkar töluðu um fyrir síðasta kosningar að afnema krónu á móti krónu skerðingarnar. Það loforð hefur verið svikið. Tveir af þremur stjórnar flokkunum sögðu fyrir kosningar að vegatollar/gjöld kæmu alls ekki til greina, arður bankana gæti dekkað samgöngubætur í landinu. En hvað gerist svo, vegatollar/gjöld eru komin inn í samkomulag á höfuðborgarsvæðinu. Hvað er að gerast innan í steinbyggingunni við Austurvöll? Um leið og kosnir fulltrúar ganga þar inn um pólast þeir í afbrygði af Gosa spítu strák þar sem nefið stækkar og stækkar þegar ákveðin málefni eru rædd eða eiga að verða afgreidd eða kláruð í nefndum. Á meðan önnur mál eins og lækkun veiðigjalds rennur í gegn án nokkurra hnökra. Svo er það Nýja stjórnaskárinn og meðferðin á henni sem er efni í aðra grein, en allir vita að það var partur af alþingi sem kom í veg fyrir að hún kæmist í gagnið og var það aðallega auðlindaákvæðið sem stóð í mönnum. Getur það verið að eftir því sem alþingismenn sitja lengur á þingi þá fara þeir að víla og díla með mál, finnast þeir eiga heimtingu á þessum og hinum hlunnindum, einnig að kjósendur séu bara mikilvægir korter fyrir kosningar þegar þeir þurfa atkvæði til að sitja sem fastast inn á Alþingi.

Svo er það skipulagsleysið á Alþingi þar sem dagskrá dagsins er breytt bara fyrirvaralaust sem gerir það að verkum að þegar nýir þingmenn setjast á þing þá eru þeir hissa og ekki vanir þannig vinnubrögðum frá sínum fyrrverandi vinnustöðum. Er það bara í góðu lagi að þessi óreyða valdi tímasóun og mál falla dauð niður á milli þinga og þurfa að vera tekinn upp aftur og aftur með tilheyrandi vinnu innan þingnefnda. Eiga vinnugæði á alþingi bara að vera svona, er það ásættanlegt? Getur verið að það þurfi að endurskoða innviði Alþingis.  Þarf að endurskoða venjur og reglur sem þar ríkja þannig að þar séu mál afgreidd af heilindum en ekki út frá eiginhagsmunum þeirra sem þar sitja. Margar stofnanir og fyrirtæki þurfa að fara í gegnum endurskoðun og innra mat til að færa sig yfir í nútímann og framtíðina. Þau fara í þessa vinnu til að gera sig betri og til að vera í takt við framtíðina sem er síbreytileg. Af hverju þarf alþingi ekki að uppfæra sig í takt við breytta framtíð sem gæti stuðlað að auknu trausti almennings á þessari svo mikilvægu stofnun okkar Íslendinga. Það er ekki hægt að lofa að bæta trúverðugleikann ef það er svo innantómt þvaður eða svik.-


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: