- Advertisement -

Mál George Floyd: Hvorki heyrist hósti né stuna frá íslenskum stjórnvöldum

Það hljóta að vera einhver takmörk fyrir því um hvað fólk er reiðubúið að gera málamiðlanir.

Alþingi / „Í dag verður til grafar borinn í Houston í Texas George Floyd sem þann 25. júní sl. var tekinn af lífi af lögreglumanni án dóms og laga um hábjartan dag vegna gruns um að hafa framvísað fölsuðum 20 dollara seðli. Hann var óvopnaður og handjárnaður, lá varnarlaus í götunni meðan lífið var murkað úr honum,“ sagði Guðmundur Andri Thorsson Samfylkingu á Alþingi fyrir nokkrum mínútum.

„Vegfarendur reyndu að skerast í leikinn en allt kom fyrir ekki. Fórnarlambið reyndi að biðjast vægðar án árangurs með orðum sem farið hafa sem eldur í sinu um heiminn: I can´t breathe. — Ég næ ekki andanum. Um allan heim hafa fulltrúar stjórnvalda og alls kyns samtaka lýst hryllingi yfir þessum villimannlegu aðförum sem varpa ljósi á það hvílík meinsemd kynþáttahyggjan er. Í hópi ráðamanna sem hafa tjáð sig má nefna Angelu Merkel, Emmanuel Macron og Boris Johnson,“ sagði Guðmundur Andri og sagði svo:

„Skemmst er líka að minnast þess hvernig Justin Trudeau tjáði sig aðspurður um mat sitt á framgöngu Trumps Bandaríkjaforseta, með langri, innihaldsríkri og þrunginni þögn. Íslenskir ráðamenn hafa líka tjáð sig með þögn um þessa miklu atburði í Bandaríkjunum en sú þögn hefur ekki verið þrungin neinu sérstöku innihaldi eða verið sérlega innihaldsrík heldur bara þögn. Ísland hefur rödd á alþjóðavettvangi. Hingað líta aðrar þjóðir og vænta þess að hér séu málsvarar mannúðar, jafnréttis og friðsamlegra lausna. Og þegar alda hneykslunar og sorgar fer um heiminn vegna ofbeldis lögreglunnar í garð hörundsdökkra í Bandaríkjunum er það í meira lagi hjárænulegt að hvorki skuli heyrast hósti né stuna frá íslenskum stjórnvöldum. Það hljóta að vera einhver takmörk fyrir því um hvað fólk er reiðubúið að gera málamiðlanir.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: