- Advertisement -

Miðaldra hvítur karl, glæsileg kona og sætasti krakkinn

Ragnar Önundarson.

Ragnar Önundarson skrifar:

Stjórnmálaflokkar verða eins og önnur félög að vera stjórnhæfar einingar. Þeir eru mikilvægar stofnanir lýðræðisins og því stórskaðlegt ef þeir ná ekki að sinna verkefnum sínum vel. Með prófkjörunum færðist val frambjóðenda frá staðbundnum flokksdeildum til kjósenda flokkanna. Þetta er valddreifing og margt gott við það. Vald flokksforystunnar rýrnaði að sama skapi. Hollustan færðist til. Þeir sem hafa „sjónvarps-útlit“ og sérstaklega þeir sem hafa mikið sést á skjánum njóta forskots. Hætt er við að fólk sem er „útlitsdekrað“ hafi hærri hugmyndir um sjálft sig en innistæða er fyrir, enda hefur slíku fólki vegnað misjafnlega í pólitík.

Þú gætir haft áhuga á þessum
„Foringinn valdi tvær ungar glæsilegar konur sér við hlið, lítt reyndar í pólitík.“

Áður fyrr hafði Sjálfstæðisflokkurinn mikla „breidd“ og náði því yfir stórt bil á hinu pólitíska litrófi. Öflugasti stjórnmálamaðurinn var kjörinn formaður og sá næst-öflugasti, oftast yngri og „upprennandi“, var kjörinn varaformaður. Þeir stóðu vörð um „breiddina“. Ekki var reynt að friða einstaka hópa með því að stinga ,,dúsu” upp í þá. Menn voru í pólitík.

Núna hefur þetta breyst. Miðaldra, hvítur, kristinn karlmaður, helst reffilegur og peningalegur, er formaður. Glæsilegasta konan er varaformaður og sætasti krakkinn ritari. Þetta er afleiðing af valdatilfærslu prófkjöranna. Sérstakir hópar heimta fulltrúa sína í forystuna. Afleiðingin er sú að formaður nýtur ekki hins uppbyggilega aðhalds sem öflugur varaformaður mundi veita í samstarfi þeirra tveggja. Formaðurinn er með gagnrýnislausa aðdáendur sér við hlið. Kjósendur skynja ekki samstíga öflugt afl heldur dreifða krafta og máttleysi.

Nýlega var gengið til kosninga í Reykjavík. Þar var þessi formúla um forystu reynd enn á ný. Foringinn valdi tvær ungar glæsilegar konur sér við hlið, lítt reyndar í pólitík. Reynsluboltarnir voru ekki bara látnir rýma til fyrir hinni heilögu þrenningu með því að færa þá aftar, nei, þeir voru settir alveg út ! Hvernig gekk þetta svo? Formúlan skilaði ekki því sem vonast var til.

Það virðist vera í gangi einhver „auglýsingamennska“. Grænmeti selst best „ferskt“. Sjálfsagt eru það „almannatenglarnir“ sem hafa sagt Flokknum að frambjóðendur þurfi að vera ferskir, eins og grænmeti. Þetta eru þeir sömu sem ráðlögðu að steypa flokknum í skuldir með auglýsingum.

Greinin var sótt á Facebooksíðu Ragnars.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: