- Advertisement -

Milljarðatugir bundnir í draugablokkum

Hækkun húsaleigu át upp allar kjarabætur sem fólkið fékk.

Gunnar Smári skrifar:

Megin markmið húsnæðisstefnu Reykjavíkur hefur verið að byggja dýrar blokkaríbúðir miðsvæðis í samstarfi við gróðafyrirtæki.

Húsnæðiskreppan skall á Reykjavík 2011. Hún er afleiðing þess að þúsundir fjölskyldna misstu heimili sín eftir Hrun, þegar stjórnvöld beittu sér fyrir aðgerðum til að færa um tíu þúsund íbúðir frá hinum efnameiri til braskara sem vildu hagnast á neyð fólks, leigja þeim sem misstu heimili sín íbúðir á sífellt hækkandi verði og selja þær svo aftur þegar íbúðaverð hefði hækkað. Ofan á þetta ömurlega ástand bættist að með fjölgun ferðamanna voru íbúðir færðar úr leigu til almennings í leigu til ferðamanna og að aukinn ferðamannastraumur leiddi síðan til meiri eftirspurnar eftir íbúðarhúsnæði fyrir þá innflytjendur sem hingað komu til að sinna ferðafólkinu. Stjórnvöld stóðu aðgerðarlaus frammi fyrir þessu ástandi; leigjendur fengu enga vernd og ekkert var gert til að lina þá kreppu sem þeir voru fastir í; hækkun húsaleigu át upp allar kjarabætur sem fólkið fékk vegna aukins afls í efnahagslífinu; þúsundir fjölskyldna voru klemmdar milli láglaunastefnunnar og okurleigu. Það var ekki fyrr en í kjarasamningunum 2015 sem samið var um a byggja upp leigufélag ASÍ og BSRB, en enn sem komið er hefur enginn flutt inn í þær íbúðir, átta árum eftir að húsnæðiskreppan fór að bíta og grafa undan lífskjörum launafólks. Þessar aðgerðir, Bjarg, eru smáar í sniðum frammi fyrir húsnæðiskreppunni og ná aðeins til takmarks hóps. Megin markmið húsnæðisstefnu Reykjavíkur hefur verið að byggja dýrar blokkaríbúðir miðsvæðis í samstarfi við gróðafyrirtæki. Nú er endanlega komið í ljós hvurslags steypa þessi stefna var. Og er – borgin er með sambærileg verkefni í gangi í Vogabyggð og á Ártúnsholti. Með því að láta gróðafyrirtækjum eftir að móta stefnuna situr almenningur uppi með mikinn fjölda af tómum óslejanlegum íbúðum á sama tíma og húsnæðiskreppan bítur enn þær fjölskyldur sem hafa þjáðst undan aðgerðarleysi og heimskulegri húsnæðisstefnu allt frá því að stjórnvöld siguðu bröskurum á þær fjölskyldur sem verst komu út úr Hruninu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í dag liggja um 25 milljarðar króna í óseldum íbúðum í miðbæ Reykjavíkur.

Ástand húsnæðismála í Reykjavík er sönnun þess að ekki er hægt að treysta gróðafyrirtækjum fyrir uppbyggingu innviða og grunnkerfa samfélagsins, sem húsnæði sannarlega er. Og húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar er sönnun þess að stjórnmálin, hinn lýðræðislegi vettvangur, getur ekki útvistað mikilvægri stefnumótun til þessara gróðafyrirtækja. Það var einmitt þetta kerfi stjórnvalda, sem þjónuðu gróðafyrirtækjum, sem hrundi 2008; ekki bara á Íslandi heldur út um allan heim. Hvers vegna í veröldinni er fólk að reyna að framlengja líf þess hér og á viðkvæmasta svæði samfélagsins? Það er mér algjörlega hulin ráðgáta. Getur verið að íslensk stjórnmálastétt hafi misst af Hruninu eða bara misskilið það gersamlega? Að Samfylkingin, Besti flokkurinn, Björt framtíð, VG, Píratar og Viðreisn í borginni trúi Hannesi Hólmsteini, að hrunið hafi snúist um Gordon Brown en ekki spillingu íslenskra stjórnmála og viðskiptalífs?

Í dag liggja um 25 milljarðar króna í óseldum íbúðum í miðbæ Reykjavíkur. Bankarnir munu leysa þessar íbúðir til sín, lífeyrissjóðir afskrifa lán eða breyta þeim í hlutafé og síðan munu þessar stofnanir sitja á þessum íbúðum fram að næstu bólu. Þá verður einhverjum braskaranum seldar þær í von um að hann geti selt þær. Bankarnir munu ekki horfast í augu við að hafa lánað í vafasöm verkefni, forðast það að afskrifa þessi lán og þrjóskast við að halda verði íbúðanna uppi. Íbúðirnar munu standa sem minnisvarði um það sem hefði mátt gera í staðinn; að byggja yfir fólk í húsnæðisneyð – ekki fyrir ímyndaðan gróða.

Íbúðirnar munu standa sem minnisvarði um það sem hefði mátt gera í staðinn; að byggja yfir fólk í húsnæðisneyð – ekki fyrir ímyndaðan gróða.


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: