- Advertisement -

MMR: Samfylkingin græðir á tapi Pírata

Stjórnin hefur einu sinni mælst með minni stuðning hjá MMR.

Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:

Gunnar Smári.

Fyrsta könnunin sem framkvæmd var eftir reiðilestur Helga Hrafns Gunnarssonar yfir Birgittu Jónsdóttur (eða opinberu smánun, ef þið viljið orða það svo) sýn marktækt tap Pírata. Í júlí-könnun MMR voru Píratar næst stærsti flokkurinn með 14,1% fylgi. Í ágúst-könnun MMR er fylgið fallið niður í 11,3% og Píratar eru fimmti stærsti flokkurinn; Samfylkingin, Miðflokkur og VG eru nú á milli Pírata og Sjálfstæðisflokksins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er Samfylkingin sem græðir á tapi Pírata. Flokkurinn var með 12,4% í júlí en mælist nú með 16,8% fylgi, sem er vel marktæk breyting. Fyrir utan Flokks fólksins, sem fellur úr 6,8% fylgi niður í 4,1% er ekki marktækur munur á fylgi annara flokka. Saga hásumarsins er tap Pírata á fylgi yfir til Samfylkingar, breyting sem átti sér stað eftir sögulegan fund hjá Pírötum. Auðvitað vitum við ekki hvort sá fundur var eina ástæðan fyrir þessum tilfærslum á fylgi, ekki einu sinni hvort hann var helsta ástæðan. En hann er það eina sem benda má á, Píratar hafa ekki verið mikið í fréttum þess utan.

Ríkisstjórnin mælist nú með 38,8% stuðning. Hún er búin að tapa aftur auknum stuðningi í kjölfar kjarasamninga. Stjórnin hefur einu sinni mælst með minni stuðning hjá MMR, var með 37,9% stuðning í nóvember í fyrra. 38,8% stuðningur eftir tuttugu mánaða líftíma er betri en ríkisstjórn Sigmundar Davíðs naut, sem hafði 34,1% stuðning eftir tuttugu mánuði, og en ósköp svipað traust og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur naut eftir jafn langan líftíma, 38,2%.

Samkvæmt þessari könnun er 35 manna meirihluti ríkisstjórnarinnar fallinn niður í 28 manna minnihluta.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa tapað frá kosningum; samanlagt 12,1 prósentustigi. Sjálfstæðisflokkur hefur tapað 6,2 prósentustigum og þremur þingmönnum, ef þetta yrðu niðurstöður kosninga; VG 5,6 prósentustigum og þremur þingmönnum en Framsókn er við kjörfylgi en myndi samt tapa manni, manni sem flokkurinn fékk síðast í raun út á veikleika kosningakerfisins. Samkvæmt þessari könnun er 35 manna meirihluti ríkisstjórnarinnar fallinn niður í 28 manna minnihluta.

Það eru ekki hægt að sjá ákveðið ríkisstjórnarmynstur út úr þessari könnun; öll ríkisstjórnarmynstur lýðveldistímans eru nú langt undir því að ná meirihluta. Þjóðstjórn gamla fjórflokksins, DBSV, væri með 40 manna meirihluta; stjórn flokka með sterka stöðu á landsbyggðinni, DBMV, væri með 37 manna meirihluta; Miðvinstristjórn SVBP, væri með 35 manna meirihluta, Reykjavíkurmeirihlutinn, SCPV, væri með 34 manna meirihluta og Viðreisnarstjórn plús Píratar, DCSP, væri með 39 manna meirihluta. Ég veit ekki hvort fólk telji eitthvað af þessum ríkisstjórnum líklega niðurstöðu, en aðrir kostir eru enn langsóttari.

Ef við listum upp fylgisbreytingum frá kosningum þá eru þær þessar samkvæmt þessari könnun:

  • Samfylkingin: +4,7 prósentustig
  • Sósíalistaflokkurinn: +2,9 prósentustig
  • Viðreisn: +2,6 prósentustig
  • Miðflokkurinn: +2,1 prósentustig
  • Píratar: +2,1 prósentustig
  • Framsókn: –0,3 prósentustig
  • Flokkur fólksins: –2,8 prósentustig
  • VG: –5,6 prósentustig
  • Sjálfstæðisflokkurinn: –6,2 prósentustig

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: