„Hér er bara hreytt í okkur, mikil vanvirðing sýnd þá sérstaklega gagnvart þingmönnum stjórnarandstöðunnar“
Ingibjörg Isaksen.
„Mig langaði til þess að kom hér upp og beina því til forseta að hún ræði kannski við hæstvirta ráðherra varðandi framkomu hér við þingmenn í þessum þingsal. Hér erum við að koma fram í óundirbúnum fyrirspurnum, beinum venjulegum spurningum til ráðherra sem við óskum jú, vissulega eftir svörum við. Hér er bara hreytt í okkur, mikil vanvirðing sýnd þá sérstaklega gagnvart þingmönnum stjórnarandstöðunnar,“ sagði Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
„Ég ætla alveg að sýna því skilning ef hæstvirtir ráðherrar eru eitthvað stressaðir. Við finnum að það örlar á smá stressi hjá þeim og það er bara allt í lagi. En við þurfum samt að vera kurteis við hvert annað. Það er lágmark. Ef við vísum bara til eldhúsdagsumræðunnar þar sem ráðherrabekkurinn hér var flissandi og sýnandi alls konar geiflur í svipbrigðum, sem var reyndar bara til skammar fyrir Alþingi að mínu mati a.m.k.., þá vil ég bara beina til hæstvirts forseta að hún taki kannski aðeins samtal við ráðherrabekkinn og taki þau jafnvel kannski bara í smá kennslustund í hvernig við komum fram við hvert annað hér í þessum þingsal,“ bætti Ingibjörg við.
Gott er að rifja upp að Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra, hafði áður spurt Ingibjörgu hvort hún kynni ekki að skammast sín. Dómsmálaráðherra steig í pontu og sagði:
„…sem fengu útreið í síðustu alþingiskosningum.“
„Mér finnst virðing í samskiptum skipta miklu. Og enginn stjórnarþingmaður og heldur ekki stjórnarandstöðuþingmaður sem ber virðingu fyrir Alþingi eða ber virðingu fyrir sjálfum sér kemur upp og lætur sér það í léttu rúmi liggja að ráðherra sé að leika sér að því að hafa brotið stjórnarskrá, sitja svo núna og skrolla í símanum af því að það er erfitt að hlusta á gagnrýnina. Virðing virkar í báðar áttir. Það er mjög alvarlegt að tala með þeim hætti sem háttvirtur þingmaður gerði. Ég svaraði því af festu enda fannst mér hegðunin slík óvirðing við Alþingi að það væri ástæða til að taka það upp. En ég tek heils hugar undir það, ég held að það væri góður bragur á því að ræða þetta við forseta Alþingis, brýna einstaka þingmenn, líka þá sem fengu útreið í síðustu alþingiskosningum, um að haga sér með virðingu á Alþingi.“