- Advertisement -

Mun ríkisstjórnin ausa peningum úr ríkissjóði til áróðurs vegna ESB-umræðu?

„Það kæmi mér ekkert á óvart ef Heimssýn er enn þá til staðar að hún fengi líka stuðning eins og aðrir sem vilja beita sér í þessari umræðu.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

„Við erum því komin á þann stað að ríkisstjórnin ætlar að ausa peningum úr ríkissjóði í stéttarfélög og önnur samtök, mörg hver með milljarða í sínum sjóðum, til að halda uppi áróðri fyrir sínu helsta stefnumáli. Ef ríkisstjórnin væri að veita sömu fjármuni til atvinnurekendasamtaka til að tala gegn ESB-aðild, væri þá ekki litið á það sem pólitíska misnotkun?“

Þetta sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi, þegar hún og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og utanríkisráðherra tókust á um hugsanlega umsókn að ESB.

Guðrún hélt áfram: „Hvers vegna er þetta ásættanlegt þegar sjónarmiðin falla að stefnu ríkisstjórnarinnar? Með þessu er verið að stíga yfir mörk sem eiga aðskilja stjórnmál og opinbera fjárveitingu. Þetta snýst ekki um skoðun á ESB heldur um að ríkisstjórnin nýti völd sín og opinbera fjármuni til að styðja við sín pólitísku markmið. Því spyr ég hæstv. utanríkisráðherra: Hvernig getur það talist forsvaranleg meðferð á opinberu fé að ríkisvaldið beiti fjármagni almennings til að styðja pólitíska umræðu sem beinlínis fellur að stefnu ríkisstjórnarinnar sjálfrar?“

„Hver verður næsta umræða sem ríkisstjórnin ákveður að fjármagna?“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og utanríkisráðherra: „Reyndar er mitt mat að við Íslendingar séum í mjög sterkri stöðu þegar kemur að því að ræða við Evrópusambandið en það breytir ekki því að það þarf að tryggja að það verði hér lýðræðisleg umræða, að almenningur geti treyst þeim upplýsingum sem eru settar fram. Þetta er að gerast út um alla Evrópu, um allan heim, það eru ákveðin öfl sem eru að skipta sér af kosningum, sem eru mikilvægar í mörgum skilningi. Við erum einfaldlega að tryggja að almenningur hafi sem greiðastan aðgang að upplýsingum en ég er meira en reiðubúin til að skoða allar aðrar tillögur.“

Að auki sagði ÞKG að hún væri reiðubúin að setjast niður með Guðrúnu og ræða fleiri leiðir.

Guðrún var ekki hætt: „Hver verður næsta umræða sem ríkisstjórnin ákveður að fjármagna?“

„Að sjálfsögðu á þetta að fara í hvort sem hún kallar það já- eða nei-hreyfingu eða Heimssýn. Það kæmi mér ekkert á óvart ef Heimssýn er enn þá til staðar að hún fengi líka stuðning eins og aðrir sem vilja beita sér í þessari umræðu,“ sagði utanríkisráðherra.

Að endingu skaut Þorgerður Katrín föstum skotum að Guðrúnu:

„Ég líka velti fyrir mér eftir þessa spurningu: Er háttvirtur þingmaður að leggja þá til að það verði hætt að veita m.a. styrki í stjórnmálaflokka? Það er kannski líka orðin stefna Sjálfstæðisflokksins. En það er hluti af því að efla lýðræðislega umræðu að styðja við stjórnmálaflokka þannig að þeir séu ekki alltaf háðir, og fólk veit nú alveg hvað ég á við, stórum og sterkum hagsmunaöflum sem beita þeim í sína þágu. Þannig að ef spurningin er: Fær Heimssýn styrk? þá kæmi það mér ekki á óvart en ég er ekki viss um SFS.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: