- Advertisement -

Munu freku karlarnir ráða för?


Katrín forsætisráðherra hefur verið hörð en sanngjörn.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar, rétt í þessu:

Þingfarsinn heldur áfram. Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með atburðarásinni síðasta sólarhringinn. Fullkomin óvissa hefur ríkt um stöðu mála og hvort ríkisstjórninni takist að semja við Miðflokkinn um þinglok. Hinir flokkarnir í minnihlutanum, hinni ábyrgu stjórnarandstöðu, hafa reynt að þoka málum áfram með það fyrir augum að ná samkomulagi en með litlum árangri framan af. Enda er það ábyrgð okkar þingmanna að standa undir slíkum vinnubrögðum. Þetta hefur verið strembið en málefnalegt; Katrín forsætisráðherra hefur verið hörð en sanngjörn. Þessi vinnubrögð leiddu síðan til þess að samningar náðust.

Miðflokkurinn birtust hins vegar með óvænt útspil og krafðist þess að frumvarp um kynrænt sjálfræði yrði tekið af dagskrá, eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þrátt fyrir að vita að þessar sjálfsögðu og löngu tímabæru umbætur á mannréttindum séu hjartans mál margra flokka, eins og Viðreisnar, Samfylkingar, Pírata og VG.

Miðflokkurinn birtust hins vegar með óvænt útspil og krafðist þess að frumvarp um kynrænt sjálfræði yrði tekið af dagskrá.
Til að kóróna allt gat þingflokkur Sjálfstæðismanna ekki gefið fjármálaráðherra umboð til að skrifa undir það samkomulag við Miðflokkinn.

En Miðflokksmönnum er sama um það. Þeir hafa ekki komið heiðarlega fram, hvorki gagnvart þeim flokkum sem eru með þeim í minnihluta né ríkisstjórnarflokkunum. En ekki síst gagnvart forsætisráðherra. Þeir hafa misboðið þingheimi stórlega með þessari framkomu sinni. Það að nota kynræna sjálfræðið, löngu tímabærar réttarbætur hinsegin fólks, sem pólitíska skiptimynt í þessum efnum er algjörlega óboðlegt.

Til að kóróna allt gat þingflokkur Sjálfstæðismanna ekki gefið fjármálaráðherra umboð til að skrifa undir það samkomulag við Miðflokkinn sem Katrín og Steingrímur J höfðu þó komið i gegn. Með því setti þingflokkur Sjálfstæðisflokksins stöðuna í algjört uppnám, enn á ný. Á sama tíma eru margir flokkar sem sitja á hliðarlínunni, boðnir og búnir til að klára málin á málefnalegan hátt.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða farsa stjórnarheimilið býður upp á í dag. Munu þau ná samkomulagi við Miðflokkinn? Munu þau ná að klára fjármálaáætlunina á næstu dögum? Mun þingflokkur Sjálfstæðismanna standa með samningsumleitunum forsætisráðherra eða verður gefið eftir gagnvart skipulögðum sérhagsmunaaðilum? Hvað verður um orkupakkann? Munu þeir sem sýna mestu óbilgirnina og yfirganginn á þingi ná mestu fram? Munu freku karlarnir, sem virka þessa stundina frekar fyrirferðarmiklir, á endanum ráða för?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: