- Advertisement -

Skipulögð blekking gegn neytendum

- Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, segir kaupmenn stunda blekkingar sem neytendur eigi erfitt mð að verjast.

Framkvæmdastjóri IKEA er gagnrýnin:
„Það er ekki bara það að verðvitund fólks brenglast við svona æfingar, það er líka verið að blekkja fólk og telja því trú um að það sé að gera verulega góð kaup.“

„Það er og hefur verið plagsiður í íslenskri verslun að margir kaupmenn verðleggja vörur langtum hærra en þeir reikna með að geta selt þær á. Þessir kaupmenn eru síðan reglulega með mjög ríflega afslætti, allt frá vasklausum dögum upp í allt að 50% afslátt og eru þá að rukka það sem gæti talist eðlilegt verð fyrir viðkomandi vöru,“ skrfiar Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA í grein sem birtist á Eyjunni.

„Margir hafa því miður látið glepjast af þessu og er nú svo komið að mörg fyrirtæki eru að auglýsa sérstaka tilboðsdaga nánast hverja einustu viku ársins, það nægir að lesa helgarblöðin til að fá staðfestingu á því. Fjölmörg dæmi eru síðan um það að kaupmenn hækka vöruverð rétt fyrir útsölu, bara til að geta sýnt fram á enn ríflegri afslátt í prósentum á útsölunni. Þeir einfeldningar sem keyptu vörur frá þessum fyrirtækjum á fullu verði verða að bíta það súra epli að hafa verið gerðir að fífli.“

Verðvitund brenglast

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þórarinn skrifar um verðlagningu og útsölur. „Almenningur á þá eðlilegu kröfu að fyrirtæki verðleggi vöruna á því verði sem hún á að vera á og að verðlækkanir séu almennt bundnar við útsölur og þá með það að markmiði að losna við gamlar birgðir, til að rýma fyrir nýjum.
Það er ekki bara það að verðvitund fólks brenglast við svona æfingar, það er líka verið að blekkja fólk og telja því trú um að það sé að gera verulega góð kaup.“

Verslunin rúin trausti

Og hverjar eru þá afleiðingarnar?

„Það má segja að íslensk verslun sé að ákveðnu leyti rúin trausti og í tilvistarkreppu. Til að ná vopnum sínum verða verslunarmenn að breyta því hvernig þeir koma fram við viðskiptavini sína,“ skrifar Þórarinn.

„Hluti verslunar á Íslandi stendur frammi fyrir þeim veruleika að það er hætta á að hún leggist af í núverandi mynd og flytjist alfarið yfir til erlendra aðila gegnum netið. Það er þróun sem er að mínu mati ekki eftirsóknarverð. Ef verslun á Íslandi ætlar að komast upp úr þeim öldudal sem hún er nú í þá þarf hugarfar hins vegar að breytast. Viðskiptavinir eru ekki einnota og það að beita blekkingum eða mismuna viðskiptavinum stórlega er ekki rétta aðferðin.

Ég sakna þess að forsvarsmenn verslunar á Íslandi hafi ekki gert sig meira gildandi í umræðunni, gagnrýnt þá sem stunda vafasama viðskiptahætti og talað fyrir bættu viðskiptasiðferði. Þar til þessir hlutir breytast, þá er hér frjósamur jarðvegur fyrir Alibaba, COSTCO, ShopUSA og Ebay.“

Hér má lesa greinina alla.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: