- Advertisement -

Niðurrif Sjálfstæðisflokksins

Sigurjón Þórðarson alþingismaður skrifaði:

„Það er óþægilegt að horfa upp á þingmenn Sjálfstæðis- og jafnvel Framsóknarflokks ástunda niðurrifsstarfsemi á stjórnkerfinu.

Sérfræðingar atvinnuvegaráðuneytisins hafa legið undir þungum ámælum frá SFS m.a. á þá leið að þeir hafi vísvitandi að afvegaleitt þingið og ástunda einhvers konar fölsun. Það hefur kveðið svo rammt að þessu að svo virðist vera sem formaður samtakanna hafi sagt af sér þar sem hann treysti sér ekki til þess að taka þátt aðförinni og ráðuneytið sendi sömuleiðis frá sér sérstaka yfirlýsingu vegna málsins sem er hér að neðan.

Í henni er allur áburður SFS og minnihlutans á þingi hrakinn skilmerkilega

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í stað þess að þingmenn standi saman sem einn maður gegn skærum auðugra hagsmunasamtaka gegn stjórnkerfinu, þá tekur Sjálfstæðisflokkurinn þátt í þeim. Það ber ekki á öðru en að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt til hliðar borgaraleg gildi og sé orðinn stjórnmálarmur hagsmunasamtaka.“

Yfirlýsing vegna ásakana um að upplýsingum sé haldið frá Alþingi í tengslum við útreikninga veiðigjalds

Við undirbúning og gerð frumvarps til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld var haft samráð milli atvinnuvegaráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins og undirstofnana þeirra ráðuneyta, Fiskistofu og Skattsins, eins og rakið er í athugasemdum með frumvarpinu. Hefur það samráð snúist um útfærslu gjaldanna og útreikning á grundvelli frumvarpsins.

Við meðferð frumvarpsins hjá atvinnuveganefnd Alþingis kom í ljós að ekki var samræmi milli þeirra sem lögðu fram mat á grundvelli eigin útreikninga á áhrifum þeirra breytinga sem frumvarpið gerði ráð fyrir. Það skýrðist af því að mismunandi forsendur voru gefnar fyrir útreikningunum og að ólík gögn voru notuð við hann. Inn í tiltekna útreikninga vantaði ákveðnar forsendur frá Fiskistofu, sem leiddi til skekkju í niðurstöðu.

Ráðuneytin og stofnanirnar unnu því í framhaldinu að því að tryggja að sameiginlegur skilningur væri milli þeirra sem að álagningu og framkvæmd veiðigjalda koma um aðferðafræðina. Greining Skattsins sem send var atvinnuveganefnd byggir á þessum sameiginlega skilningi og eru ráðuneytin sammála þessari niðurstöðu, sem og Fiskistofa.

Til að tryggja að frumvarpið sé alveg skýrt um þessar forsendur útreikninga hefur meirihluti atvinnuveganefndar lagt til breytingar í nefndaráliti sínu sem tekur af öll tvímæli í þessum efnum.

Atvinnuvegaráðuneytið og starfsfólk þess hefur upp á síðkastið sætt alvarlegum ásökunum í tengslum við þetta mál, m.a. um að hafa reynt að afvegaleiða löggjafann og að hafa óeðlileg afskipti af starfsemi stofnanna ríkisins. Slíkar ásakanir eru litnar mjög alvarlegum augum og vísa ráðuneytin þeim alfarið á bug.

Atvinnuvegaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Skatturinn, Fiskistofa.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: