- Advertisement -

Notar Seðlabankinn rangar forsendur?

Efnahagsmál Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, talaði um vaxtaákvörðun Seðlabankans, sem verður opinberuð í fyrramálið.

Þorsteinn las upp eftirfarandi: „Í síðustu viku, nánar tiltekið fimmtudaginn 3. desember, ákvað 25 manna stjórnarráð Seðlabanka Evrópu að lækka stýrivextina úr 0,1% niður í mínus 0,3% til að örva verðbólgu. Sú verðbólga sem menn eru ósáttir við hjá ECB mældist 0,1% í október, svokölluð samræmd vísitala neysluverðs. Sama vísitala fyrir Ísland mældi verðbólguna í október vera 0,34%, samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofunnar, en birtist sem 0,4% á vef Eurostat. Á vef Eurostat má einnig sjá að hækkun samræmdrar vísitölu neysluverðs var álíka há á Íslandi og í Hollandi, umtalsvert lægri en í Svíþjóð og í Noregi mælist hún 2,4%. Í Danmörku var þessi breyting hins vegar á heilu ári 0,2%.“

Þorsteinn sagði ástæðuna fyrir því að ég dró athyglina að þessu er að peningastefnunefnd notar verðbólgumælingu frá Hagstofunni sem mat verðbólguna vera 1,8% í október. „Mæld á annan hátt en samræmda vísitalan sem ECB notar. Spurningin er hvers vegna Seðlabankinn og peningastefnunefnd meta ekki svo ólíka verðbólgu, þ.e. 0,1% og 0,34%, á svona gjörólíkan hátt og telur að 0,34% verðbólga krefjist þess að stýrivextir séu 6,25% sem er sú vaxtatala sem er kynnt í fréttatilkynningu til erlendra fréttastofa. Þegar seðlabankar í nágrannalöndunum okkar, m.a. með meiri hækkun húsnæðisverðs og meiri hækkun samræmdrar vísitölu neysluverðs, telja nauðsynlegt að halda stýrivöxtum í kringum 0%.“

„Þá segir maður líka: Hafa Seðlabankinn og peningastefnunefnd metið hverjir stýrivextir þyrftu að vera ef notuð væri samræmd vísitala neysluverðs til að meta verðbólgu á Íslandi? Hvers vegna notar Seðlabankinn annað viðmið við ákvarðanir sínar um stýrivexti en þjóðir í kringum okkur? Telur seðlabanki að 25 manna stjórnarráð ECB hafi minni skilning á virkni peningastefnu en 5 manna peningastefnunefnd SÍ? Ef ekki, hvers vegna eru þá stýrivextir á Íslandi 6,25% en mínus 0,3% hjá ECB?“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: