Helen María Ólafsdóttir skrifaði:

Best er að fylgja sinni eigin sannfæringu. Ég hygg að Sanna eigi eftir að láta til sín taka í pólitík á Íslandi þó það verði kannski ekki í Sósíalistaflokknum. Persónulega gekk ég í Sósíalistaflokkinn því mér líkaði stefnumálin og áherslurnar hjá Sönnu í borginni. Í flokknum var flott fólk sem hefur tileinkað sér að berjast gegn fátækt, jaðarsetningu og fyrir mannréttindum, sér í lagi nokkrir oddvitar í kosningunum sem er frábært fólk. En ný fylking er tekin við í Sósíalistaflokknum og óska ég henni svosum því besta enda gott fólk inná milli. Ég var hinsvegar viðstödd aðalfundinn um helgina og mér fannst frekar ógeðfellt hvernig hópur fólks hreinlega snérist gegn mörgu af því góða fólki sem byggði flokkinn upp og hreinsaði hópinn út með látum. Samskipti nýja hópsins og aðferð hans við að ná völdum hugnaðist mér ekki. Ég hef því sagt mig úr flokknum og er því aftur orðin pólitískur munaðaleysingi.
En, þessi klofningur var – held ég – einfaldlega óumflýjanlegur. Persónur voru sterkari en flokkurinn sem sameinaði þau. Eftir stendur að það vantar almennilegan vinstriflokk – en ég hygg, á þessum tímapunkti – því miður að hin nýja fylking í Sósíalistaflokknum geti ekki leitt slíkt átak. Flokkur fólksins dalar og daður hans við útlendingafóbíu er rauð lína en það er hætt við að hægri popúlisma vaxi fiskur um hrygg og að þessi ríkisstjórnin missi meirihlutann og að næst fáum við Miðflokk, Sjálfstæðisflokk, Framsókn og hreinlega Lýðræðisflokkinn. Okkur sárvantar öflugan flokk sem sameinar vinstrið með áherslur á efnahagslegt réttlæti, mannúð, mannréttindi og frið. Hvað það mögulega verður, veit ég ekki en stórkyttur á vinstri vængnum hljóta að vera hugsi yfir næstu borgar- og alþingiskosningum.
Helen María birti greinina á Facebook.