- Advertisement -

Orðið á bekknum

Menning Skáld og ritlistarnemar í Reykjavík og í York á Englandi hafa tekið höndum saman, í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, um að birta skáldskap á borgarbekkjum í Rowntree Park í York og í Hljómskálagarðinum í Reykjavík undir heitinu Orðið á bekknum.

Aðdragandi að verkefninu er að skáldkonan Karen Hill-Green í York las um skáldabekki Bókmenntaborgarinnar í Reykjavík í breskum fjölmiðli. Á skáldabekkjum má hlusta á sögur og ljóð í upplestri höfunda og leikara með því að skanna rafrænan kóða á skiltum sem fest eru á bekkina. Hún hreifst af verkefninu og ákvað að standa fyrir svipuðu verkefni heima fyrir. Það gerðu hún og Cath Mortimer í samstarfi við listigarðinn Rowntree Park og úr varð verkefnið Words from a Bench. Gestir garðsins geta nú skannað rafræna kóða á bekkjum, sest þar niður og lesið sögur og ljóð á snjallsímum eða spjaldtölvum. Verkin eru fyrst og fremst eftir heimamenn í York, sem skrifa bókmenntatexta sérstaklega fyrir garðinn, en nýlega bættust við textar eftir sex íslenskar skáldkonur, sem allar hafa stundað nám í ritlist við Háskóla Íslands.

Nú geta vegfarendur í Reykjavík nálgast þennan skáldskap á 16 bekkjum í Hljómskálagarðinum. Bekkirnir eru allir staðsettir í kringum Tjörnina sunnan Skothúsvegar og er því upplagt að gefa sér góðan tíma til að rölta þennan litla hring, setjast niður á bekkjum og lesa fjölbreytt úrval texta eftir íslensk og bresk skáld. Þess má geta að í sömu gönguleið er nýr höggmyndagarður kvenna, Perlufestin. Íslensku skáldin sem eiga verk á bekkjunum eru Æsa Strand Viðarsdóttir, Ásdís Ingólfsdóttir, Inga M. Beck, Þóra Karítas Árnadóttir, Lóa H. Hjálmtýsdóttir og Steinunn Lilja Emilsdóttir. Þau bresku eru Janus Christiansen, Christopher Brunt, Laura Munteanu, Ben Warden, Karen Green, Polly Gibson, Adrian Paul Fayter, Rachel McHale og Kate Lock.

Orðið á bekknum er tímabundið verkefni, en hægt verður að lesa sögurnar og ljóðin í Hljómskálagarðinum út september 2014.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: