- Advertisement -

Orkupakkinn: ESB setur fyrirvarana beint í ruslið

„Þetta sýnir okkur svo ekki verður um villst hversu lítið hald er í þessum svokölluðu íslensku fyrirvörum.“

Sigmundur Davíð:
„Enda er það ljóst að afstaða Evrópusambandsins er sú að það sé ekkert til sem heiti einhliða fyrirvarar við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fer fyrir sínum flokki í málþófinu um orkupakkann. Í einni, af fjölmörgum, ræðum vék hann að norska þinginu og afgreiðslu þess á orkupakkanum. Ekki síst að þeim lagalegum fyrirvörum sem norska þingið setti.

„Þá er ég ekki að tala um ímyndaða fyrirvara eins og menn hafa verið að leita að hér í húsinu undanfarna daga, stjórnarliðar, og talið sig finna einhvers staðar í orðalagi í greinargerð eða einhverju slíku. Nei, það var krafa norskra þingmanna að settir yrðu átta raunverulegir lagalegir fyrirvarar,“ sagði hann og upplýsti síðan um afdrif norsku fyrirvaranna eftir að þeir bárust til Brussel.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„En það sem er hins vegar mjög merkilegt við þessa fyrirvara, lagalega fyrirvara, að mati norska þingsins, er að liðnir eru 14 mánuðir, hafi ég reiknað það rétt, frá því að þingið sendi þessa fyrirvara til Evrópusambandsins til að fá staðfestingu á því að þeir hefðu eitthvert gildi, en bréfinu hefur ekki verið svarað enn. Og hvers vegna skyldi það vera? Getur ekki verið, mér finnst það reyndar liggja í augum uppi, að þeir sem tóku við þessu bréfi í Brussel hafi sett það í stóra fælinn. Og hvað á ég við með stóra fælnum? Þegar ég vann sem fréttamaður á Ríkisútvarpinu bárust þangað ýmis erindi á hverjum degi og vaktstjórarnir skoðuðu þau erindi og sum þeirra, reyndar býsna mörg, kannski flest, voru sett í stóra fælinn, sem þýddi að þeim var hent beint í ruslakörfuna. Enda er það ljóst að afstaða Evrópusambandsins er sú að það sé ekkert til sem heiti einhliða fyrirvarar við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið,“ sagði Sigmundur Davíð.

Hann hélt áfram: „Þess vegna hafa menn væntanlega talið þetta, að þeirra mati, einhvers konar lofsamlegar blekkingar til að fá norska þingið til að innleiða, eða talið þetta vera fyrirvara til heimabrúks, svo stuðst sé við orðalag úr umræðunni á Íslandi. En þetta sýnir okkur svo ekki verður um villst hversu lítið hald er í þessum svokölluðu íslensku fyrirvörum.“


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: