- Advertisement -

Öryrkjar fastir í vítahring

„Mig langar að gera að umtalsefni fátækt á Íslandi, þá sér í lagi fátækt öryrkja og þau vandamál sem mjög margir öryrkjar þurfa að glíma við í dag,“ sagði Birgitta Jónsdóttir þingkona Pírata.

Birgitta sagði að sér hafi borist mörg bréf, sem og öðrum þingmönnum, frá öryrkjum þar sem lýst er ástandi sem margir öryrkjar búa við í dag. Hún sagðist skora á þingmenn úr öllum flokkum að bregðast strax. „Allt of margir búa við þær aðstæður að vera bæði veikir og eiga ekki fyrir mat þegar tvær vikur eru liðnar af mánuðinum. Allt of margir hafa ekki efni á að fara til læknis. Allt of margir geta ekki leyst út lyfin sín. Allt of margir viðhaldast í vítahring veikinda út af áhyggjum.“

Birgitta sagði kerfið, sem við höfum búið til og er útfært hjá TR, vera óboðlegt. „Sá sem er öryrki þarf að sanna að hann sé veikur annað hvert ár og ég veit til þess að fólk er byrjað að kvíða fyrir kannski hálfu ári áður en þetta endurmat á að eiga sér stað. Mér finnst að við sem erum heilbrigð eigum að styðja þá sem eru veikir. Til þess búum við í þessu samfélagi þar sem við borgum skatta inn í velferðarkerfi en þetta velferðarkerfi virkar ekki. Ég endurtek að ég skora á þingmenn úr öllum flokkum að við tökum saman höndum og gerum eitthvað í þessu strax.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: