- Advertisement -

Óþolandi og ekki bjóðandi

…sé þegnum landsins, árum saman og ár eftir ár, mismunað á þennan hátt.

Ráðherrar fjármála og heilbrigðismála fengu að finna til tevatnsins á Alþingi í gær.

Ásmundi Friðrikssyni er ekki skemmt. Hann tók til máls á Alþingi í dag og var hlaðinn gagnrýni á Bjarna Benediktsson og Svandísi Svavarsdóttir án þess að nefna nöfn þeirra. Engum dylst hvað Ásmundur hafði í huga. Fjárveitingavaldið og heilbrigðismálin.

Ásmundur: „Mig langar að gera að umtalsefni að íbúum á Suðurnesjum hefur fjölgað um 32% frá árinu 2013, úr rúmlega 21.000 í 27.000 íbúa. Næstmesta fjölgunin á Suðurlandi er 17,5%. Af þessum fjölda eru um 23% með erlent ríkisfang. 60% af þeim sem eru atvinnulausir suður frá eru með erlent ríkisfang, fólk sem kom hingað þegar mestu skiptir og okkur vantaði starfsfólk. Stór hluti þessa hóps er að verða atvinnulaus,“ sagði þingmaðurinn og hélt svo áfram:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Á sama tíma eru framlög á Suðurnes með því alminnstu sem gerist. Það virðist að frá því á árinu 2013, þegar ég fór að fylgjast sérstaklega vel með þessu, ég settist á þing, þá höfum við Suðurnesjamenn verið mjög aftarlega á merinni þegar kemur að framlögum til samfélagsins. Ég velti því fyrir mér hvort það sé í rauninni eðlilegt að í þessum sal sé þegnum landsins, árum saman og ár eftir ár, mismunað á þennan hátt. Fjárlög eiga heldur ekki að mismuna þegnum þessa lands. Það kemur í ljós í nýlegri úttekt sem Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum lét gera að á hvern íbúa í Reykjanesbæ er greitt sem samsvarar 71.000 kr. í heilsugæslustöðina. Næstlægsta framlagið er á Heilbrigðisstofnun Norðurlands 102.000 kr., Heilbrigðisstofnun Vesturlands er með 110.000 kr. og Heilbrigðisstofnun Suðurlands er með 121.000 kr. Svona framlög og svona mismunun er óþolandi og er ekki bjóðandi lengur.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: