- Advertisement -

Páfugl úti í mýri

Alþjóðlega barnabókmenntahátíðina Páfugl úti í mýri  fer fram 9.—12. október og á henni mun koma fram á fjórða tug íslenskra og erlendra rithöfunda og fræðimanna. Stór sýning byggð á norrænum barnabókmenntum er haldin í tengslum við hátíðina og stendur hún yfir í október og nóvember. Á hátíðinni verður sömuleiðis haldið málþing um framtíð barnabókmennta.

Barnabókmenntahátíðin Mýrin fer fram í sjöunda sinn í Norræna húsinu 9.—12. október 2014. Hátíðin nú í haust er sú stærsta frá upphafi og á henni koma fram hátt í 40 rithöfundar, myndlistamenn og fræðimenn til að lesa upp, kenna sagnagerð og myndlist og hittast og spjalla um barnabókmenntir.

Í tengslum við hátíðina stendur einnig yfir sýning sem nefnist Páfugl úti í mýri – orðaævintýri. Segir á vef Bókmenntahátíðar að sýningin sé nýstárlegt ævintýraland þar sem ný og gömul börn bregða á leik með tungumál, myndmál og bækur. Sýningin stendur yfir frá 4. október — 23. nóvember 2014. Sýningin er sú stærsta sem sett er upp í Norræna húsinu á árinu.

Framtíðin í barnabókmenntum er síðan yfirskrift málþings sem fer fram í Norræna húsinu 10. október. Aðalfyrirlesarar dagsins eru fræðikonurnar Nina Goga og Anette Öster sem koma til að fjalla um stöðu barnabókarinnar á Norðurlöndunum. Sænski rithöfundurinn  Mårten Melin heldur einnig erindi um sjónarhorn höfundarins. Síðdegis fara fram umræður í tveimur pallborðum: í öðru verður fjallað um miðlun og hvernig best sé að koma barnabókum á framfæri og í  hinu verður fjallað um efni og innihald í bókum fyrir nútímabörn. Skráning fer fram á heimasíðu hátíðarinnar: www.myrin.is eða í netfanginu myrinskraning@gmail.com

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sjá nánar á vef Borgarbókasafnsins.

 

 

 

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: