- Advertisement -

„Peningarnir eru bara fastir í girðingum hinna útvöldu“

„Nú er það svo að heimilin sem mest skulda og minnst eiga hafa borið allar byrðarnar af baráttunni gegn verðbólgunni.“

Alþingi „Til að draga saman allt sem ég hef sagt er inntakið það að fjármögnun úrræða fyrir Grindvíkinga megi ekki hafa áhrif á afkomu heimilanna í landinu sem mörg hver eru komin á ystu nöf. Það má ekki ýta þeim fram af henni. Þau eru ekki aflögufær. Á Íslandi eru til miklir fjármunir. Þeir eru bara fastir í girðingum hinna útvöldu. Við þurfum að ná í þá því að þeir koma frá fólkinu í landinu og tíminn til að ná í þá er núna,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Flokki fólksins, þegar hún lauk merkri þingræðu um efnahagsmál.

Ásthildur Lóa hóf ræðuna svona:

„Við ræðum frumvarp fjármálaráðherra um allt að 30 milljarða lántöku í erlendri mynt til að mæta mögulegri fjárþörf vegna jarðhræringa á Reykjanesi.“

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt fram frumvörp um hækkun bankaskatts.

Aðeins síðar í ræðunni sagði hún:

„Nú er það svo að heimilin sem mest skulda og minnst eiga hafa borið allar byrðarnar af baráttunni gegn verðbólgunni á meðan betur stödd heimili hafa sloppið gríðarlega létt frá þeim. Það er augljóslega ekki hægt að réttlæta það með neinum hætti því a.m.k. ættu heimilin að bera hlutfallslega svipaðan kostnað af verðbólgunni en þess í stað bera þau sem minnst hafa hann allan, á meðan efnuð og skuldlítil heimili sleppa alveg.“ Þarna er fast kveðið að.

„Auknar lántökur ríkissjóðs munu hafa bein áhrif á verðbólguna sem mun án tafar gefa Seðlabankanum fleiri ástæður til frekari vaxtahækkana. Það er lítið unnið ef hjálpa á Grindvíkingum með því að koma öðrum heimilum á vonarvöl og ég er algjörlega sannfærð um að eins mikið og Grindvíkingar þurfa á hjálp að halda þá eru þeir ekki að biðja um að kostnaðinum verði velt beint út í verðlagið.

Ásthildur Lóa er með tillögur hvernig er best að vinna úr málinu:

„Það er hægt að vinna þetta með öðrum hætti. Það væri hægt að skattleggja með einhverjum hætti þann gríðarlega hagnað sem stórfyrirtæki hafa sýnt á undanförnum árum. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt fram frumvörp um hækkun bankaskatts. Ég hef sjálf lagt til í þrí- eða fjórgang, að hann verði hækkaður upp í það sem hann var fyrir lækkun, 0,376%, sem myndi gefa ríkissjóði a.m.k. 10,3 milljörðum meira í aðra hönd en 0,145% sem hann er í núna. Fyrir síðustu jól lagði Inga Sæland svo til að bankaskatturinn færi upp í 0,838% tímabundið eða þar til stýrivextir myndu lækka niður fyrir 5%, enda græða bankarnir mest á hækkun vaxtanna. Hækkun bankaskattsins upp í 0,838% myndi skila 30 milljörðum í auknar tekjur á einu ári. Sömu upphæð og nú stendur til að taka með erlendu láni. Bara með því væri búið að leysa þann vanda sem ríkissjóður stendur frammi fyrir vegna uppkaupa húsnæðis í Grindavík. Athugið að þrátt fyrir hækkunina sem formaður Flokks fólksins lagði til, væri bankaskatturinn samt vel undir 1%.

Heimilin eiga þetta fé.

Alltaf þegar mælt er fyrir hækkun bankaskatts eru helstu rökin gegn hækkuninni þau að bankarnir myndu velta þessum kostnaði beint út til neytenda í formi hærri vaxta og þjónustugjalda, eins og andmælendur þessara frumvarpa beri hag neytenda svo svakalega fyrir brjósti. En öll dæmi og sá kaldi veruleiki sem blasir við sýna fram á að svo sé alls ekki. Enda er auðvelt að mótmæla þessum rökum,“ sagði Ásthildur Lóa.

Hún var ekki hætt. Lagði fram nokkra punkta:

Í fyrsta lagi er nóg að skoða sögu bankanna frá lækkun, þar sem álögur þeirra á neytendur hafa bara alls ekki lækkað, heldur þvert á móti hækkað í jöfnu hlutfalli við undanlátssemi stjórnvalda gagnvart þeim.

Í öðru lagi sýna hagnaðartölur bankanna fram á það sem ég hef ítrekað og oft bent á; að með vaxtahækkunum sínum sé Seðlabankinn að beina fjármunum heimilanna til bankanna í bílförmum á færibandi því að stóraukinn hagnaður þeirra er fyrst og fremst vegna vaxtatekna. Heimilin eiga þetta fé. Þó að það bæti þeim ekki skaðann er a.m.k. hægt að nota það til að koma í veg fyrir að meira verði af þeim tekið og að hægt verði á flutningalestinni til bankanna.

Í þriðja lagi má sjá það á vaxtahækkunum undanfarinna tveggja ára að bankarnir fara almennt ekki slíku offari í vaxtahækkunum og við höfum horft á undanfarið nema með skýrum tilmælum frá Seðlabankanum. Þeir eru ekki alveg jafn fljótir að hlýða tilmælum hans niður á við, þó það sé önnur saga, en að jafnaði eru breytilegir vextir þeirra á fasteignalánum um 2% hærri en stýrivextir Seðlabankans.

Það mætti t.d. hækka veiðigjaldið.

Í fjórða lagi hafa þjónustugjöld bankanna hverfandi áhrif á fjárhag heimilanna. Þar spila vextirnir stærsta hlutverkið. Þjónustugjöld bankanna hafa hins vegar lítil áhrif á fjárhag heimilanna. Með þessum orðum er ég ekki mæla bót öllum þeim matarholum sem þessi musteri Mammons hafa fundið til að ná fé af neytendum, ég er bara einfaldlega að benda á að þær eru ekkert í samanburði við vaxtabyrðina sem aukin verðbólga myndi hvetja Seðlabankann til að bjóða upp á.

Eingöngu þarf einfalda lagabreytingu til og ef einhversstaðar er fé að finna er það í bönkunum. Á neyðartímum er fáránlegt að halda áfram að hlífa þeim sem mest hafa á meðan endalaust er þjösnast á öðrum.

En það er fleira sem hægt er að gera til að fjármagna aðgerðir til stuðnings Grindavíkur annað en að fara í lántökur. Það mætti t.d. hækka veiðigjaldið. Það er einfalt að gera breytingar á veiðigjaldinu sem myndu skila ríkissjóði auknum tekjum. Hæglega mætti þannig auka tekjur ríkissjóð um hátt í 10 milljarða á ári.“ 

Hér er hægt að lesa alla ræðuna.

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: