- Advertisement -

Píratar: Verðtyggingin er skítamix

Stjórnmál „Ég kann ekki kurteisara orði yfir það, virðulegi forseti, ákveðin skítamix á borð við verðtryggingu sem hrjáir samfélag okkar og er meðal umdeildustu málefna dagsins í dag, og réttilega,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson kapteinn Pírata á Alþingi í gær.

„Upp á síðkastið hefur verið meira um fréttir sem varða efnahagsmál, banka, einkavæðingu banka, eignarhald banka, verkföll, verðbólgu, verðtryggingu, sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins tala meira og meira um, sér í lagi í samhengi við hæstvirtan fjármálaráðherra, væntanlega vegna þess að menn vilja fá þessi mál aftur upp á yfirborðið og ræða þau til hlítar.

Krónan er gallaður gjaldmiðill

„…ég ávallt að þeirri sömu niðurstöðu að íslenska krónan sé í grundvallaratriðum gallaður gjaldmiðill að því leyti að hann er agnarsmár í hagkerfi sem getur ekki haldið í svo smáan gjaldeyri án mjög verulegra vankosta sem við þekkjum af áratugareynslu eins og hæstv. fjármálaráðherra benti réttilega á um daginn.

Það er ekki bara það að krónan búi til óstöðugleika, hún knýr fram og gerir nauðsynleg alls konar óþægileg verkfæri. Ég kann ekki kurteisara orði yfir það, virðulegi forseti, ákveðin skítamix á borð við verðtryggingu sem hrjáir samfélag okkar og er meðal umdeildustu málefna dagsins í dag, og réttilega.“

Verðum að takast á við vandamálið

„Í því liggur önnur lexía sem er sú að krónan flækir hlutina. Hún gerir að verkum að tiltölulega óumdeildar hagfræðikenningar — ég segi tiltölulega í ákveðinni kaldhæðni — reynast ekki réttar hér. Við getum ekki notað klassíska hagfræði hér til að spá fyrir um hvað gerist til dæmis við hækkun stýrivaxta Seðlabanka, þ.e. þegar krónan er ekki í höftum. Krónan gerir að verkum að við þurfum að hugsa í höftum og verðtryggingu og einhverjum vúdú-seðlabankavöxtum sem hafa áhrif sem við þekkjum ekki fyrir fram. Þetta er reynslan af hruninu að mínu mati.

Það er sama hvað okkur finnst með Evrópusambandið, við verðum að takast á við vandamálið sem er íslenska krónan. Ef menn eru harðákveðnir í að halda í hana þá bera þeir ábyrgð á að útskýra hvernig nákvæmlega þeir ætla að fara að því.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: