- Advertisement -

Prestum fækkar ekki næstu 15 árin

Það mun alveg tvímælalaust fækka enn þá meira í þjóðkirkjunni.

„Prestum fækkar ekkert þar og það er ekki endurskoðað næstu 15 árin. Ef við skoðum lög um opinber fjármál getur það einfaldlega ekki staðist því að þar er skýrt kveðið á um að hámarki fimm ára samningslengd. Það er hægt að veita undanþágu frá því, það er hægt að hafa samning bundinn lengur ef um meiri háttar fjárfestingar eða eitthvað slíkt er að ræða, en það er ekki einu sinni gerð tilraun til þess að útskýra það eða rökstyðja að 15 ár séu nauðsynleg og falli undir þá undanþágu. Ég gæti skilið það ef það þyrfti 15 ár í viðbót til að gera upp þessa eignatilfærslu, þá væri þetta fínt, en það er ekki einu sinni reynt,“ sagði Björn Leví Gunnarsson á Alþingi aldeilis ósáttur við frumvarp ríkisstjórnarinnar um Þjóðkirkjuna.

„Í viðbótarsamkomulaginu er, eins og hefur komið fram í umræðunni, verið er að taka burt það ákvæði úr kirkjujarðasamkomulaginu sem fjölgar eða fækkar launuðum prestum. Þeir voru 138 og eru komnir í 136 samkvæmt þeim breytingum sem hafa orðið á fjölda skráninga í þjóðkirkjuna. Þetta er greinilega alls ekki sniðugt því að það er verið að fjarlægja ákvæðið á þeim tímum þar sem skráningum í kirkjuna fækkar og fækkar og nýskráningar eru núna komnir undir 50%. Það mun alveg tvímælalaust fækka enn þá meira í þjóðkirkjunni á næstum árum og þar af leiðandi felur þessi viðbótarsamningur sem er gerður núna ekki, eins og það er orðað hérna, í sér nýjar skuldbindingar af hálfu ríkisins.“

„Að mínu mati hlýtur þetta því að vera ólöglegt samningsákvæði og þar af leiðandi ekki gilt yfirleitt og hægt að taka það upp á hverju ári, af því að fjárlög eru samþykkt á hverju ári. Það er nú einu sinni Alþingi sem fer með fjárveitingavaldið og þegar allt kemur til alls er það Alþingis að ákveða hvort þessi samningur verði fjármagnaður eða ekki. Hann er ekki með gildistíma að eilífu, það er ekki hægt samkvæmt lögum um opinber fjármál. Hann er ekki með endurskoðunarákvæði upp á 15 ár, það virkar ekki samkvæmt þeirri forskrift sem lög um opinber fjármál gera ráð fyrir. Þess vegna hlýtur samningurinn einungis að gilda frá ári til árs, eftir því sem Alþingi samþykkir. Þegar Alþingi segir nei fellur hann einfaldlega um sjálfan sig. Ef kirkjan telur sig hlunnfarna í þeirri eignatilfærslu eða eitthvað því um líkt sem þar liggur á bak við verður kirkjan einfaldlega að sækja það fyrir dómi. Þá verðum við að leggja öll gögn málsins þar fyrir og endum í endanlegri upphæð, ekki óendanlegri upphæð eins og við búum við núna,“ sagði Björn Leví.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: