- Advertisement -

Raðhús á rúmar 100 þúsund

„Stundum er gott að hugsa til baka, þó ekki til annars en að læra af mistökum sínum,“ skrifar Guðmundur Óskarsson.

„Árið 2007 nefndi konan mín það við mig að hún vildi flytja til Danmörku, til dætra okkar sem báðar voru fluttar. Ég aftók það með öllu og sagði við hana að Ísland væri besta land í heimi að búa í. Upp úr þessu fór ég að hugsa um efnahag Íslands og sá að þetta gat ekki gengið til lengdar. Það var enginn framleiðni á bak við allt þetta peningaflóð á Íslandi. Það eina sem hafði gerst var sala á bönkunum og Kárahnúkavirkjun, það gat ekki endað vel. Ég samþykkti að flytja með því skilyrði að við mundum selja allar okkar eigur. Við seldum húsið, bílana og fyrirtækið.

Til að gera langa sögu stutta þá keyptum við hús í Odense, því ég vildi ekki vera á leigumarkaði í óörygginu. Mistök mín voru að fara út með Íslenska þekkingu og upplifa allt öðruvísi þjóðfélag í DK. Ég fór fljótlega að vinna og skildi það ekki að vinnufélagarnir mínir, vel menntað fólk með góð laun bjó að megninu til í leiguhúsnæði. Á meðan vinnufélagarnir voru að dingla sér á ströndinni í frítíma sínum, var ég í svitabaði að dytta og halda við húseigninni minni. Þar sem við hjónin vorum kominn í seinni hálfleik í lífinu ákváðum við að selja húsið og sækja um hjá leigufélagi. Hætta þessu streði og lifa eins og rúmlega helmingur Dana, í leiguhúsnæði og slappa af í frítímum. Við seldum húsið og sóttum um í AB-leigufélaginu.

Árið 2013 fluttum við í leiguhúsnæðið sem er 84 fm. raðhús og við greiðum 4800 dkr. í mánaðarleigu. Þetta var mjög heppilegt því upp úr þessu lenti ég í slysi og hef ekki nema um 30% mátt í hægri hendinni. Yrði ekki burðugur til viðhalds á stórri fasteign og lóð. Leigufélagið sér um allt viðhald. Ef heimilistæki sem við getum ekki verið án bilar þá senda þeir viðgerðarmann og ef það gengur ekki þá koma þeir bara með nýtt, okkur að kostnaðarlausu. 2019 fór ég í hjartauppskurð og það gekk bara vel. Ég skrifa þetta til þess að þeir landar mínir sem eru að hugsa um að flytja til Danmörku komi ekki hingað með Íslenskan hugsunarhátt, að þurfa að eiga. Þeir sem eru á leigumarkaði hjá leigufélögum hafa sömu réttindi og þeir sem eiga eignir, því réttur leigjenda er mjög sterkur og fólk getur búið í leiguhúsnæðinu alla ævi, svo framarlega sem fólk stendur skil á leigunni. Það er eins og að vera skráður fyrir húsi, ef fólk skuldar og borgar ekki af lánunum þá hverfur öryggið.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: