- Advertisement -

Ræða neyðarstjórn yfir Sorpu

Finna þarf aðrar leiðir til að bæta fyrri skaðann en að senda notendum reikninginn.

„Það er óhjákvæmilegt að stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki vitað af þessari gríðarlegu framúrkeyrslu og er það grafalvarlegt mál að stjórn félagsins hafi ekki verið upplýst um málið fyrr en í júní á þessu ári. Hér á sér stað hylming sem kallar á viðamikla, utanaðkomandi rannsókn. Velta má fyrir sér hvort félagið sé að verða ógjaldfært. Einnig er tekið undir bókun minnihluta bæjarráðs Kópavogs að komi til greina að skipa félaginu neyðarstjórn.“

Þetta er úr bókun Vigdísar Hauksdóttur á borgarráðsfundi í dag.

„Viðbótarkostnaðurinn er sagður tilkominn vegna mistaka/handvammar. Fyrir handvömmina eiga borgarbúar að greiða en enginn hjá SORPU mun ætla að axla ábyrgð. Því er mótmælt að seilast eigi í vasa borgarbúa til að greiða fyrir stjórnunarklúður SORPU og í framhaldinu á að láta eins og ekkert hafi í skorist. Svona vinnubrögð eru óásættanleg og ekki borgarbúum bjóðandi. Flokkur fólksins sættir sig ekki við skýringar sem hér eru lagðar fram og krefst þess að stjórnin axli á þessu ábyrgð. Finna þarf aðrar leiðir til að bæta fyrri skaðann en að senda notendum reikninginn,“ bókaði Katrín Baldursdóttir Flokki fólksins.

Meira úr bókun Vigdísar: „Það vantar rúman 1,6 milljarð inn í rekstur SORPU bs. Ekkert kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2018 að staðan væri með þessum hætti. Í honum undirritar ytri endurskoðandi reikninginn með þessum orðum: „Það er álit okkar að ársreikningurinn gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu félagsins 31. desember 2018 og afkomu þess og breytingu á handbæru fé á árinu 2018, í samræmi við lög um ársreikninga.“ Athygli vekur að skipt var um ytri endurskoðun SORPU bs. á milli endurskoðunarára eins og hjá Reykjavíkurborg. Kynnt var á fundinum að til stæði að lengja í lánum hjá Íslandsbanka úr 5 árum í 15 en það lán stendur í einum milljarði. Óskað var eftir nýrri lántöku hjá lánasjóði sveitarfélaga upp á milljarð. Þá á að framlengja 500 milljóna framkvæmdalán um 2 ár.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: