- Advertisement -

Rakel Mjöll og Draumaeiginkonurnar hita upp fyrir The Rolling Stones: „Afi hélt að ég væri að grínast“

Söngkonan Rakel Mjöll Leifs­dótt­ir mun hita upp fyr­ir eina stærstu rokkhljómsveit allra tíma, The Roll­ing Stones, um helg­ina í Hyde Park í London, ásamt hljóm­sveit sinni Dream Wife.

Um þessar mundir fagnar hljómsveitin The Roll­ing Stones sextíu ára starfsaf­mæli sínu.

The Rolling Stones eru hvergi nærri hættir eftir 60 ár í bransanum.

Seg­ir Rakel það vera afar skemmti­legt að taka þátt í þess­um tíma­mót­um með Mick Jagger og félögum:

„Þetta kom á borð til okk­ar fyr­ir aðeins nokkr­um dög­um síðan en svona get­ur tón­list­ar­brans­inn verið ófyr­ir­sjá­an­leg­ur. Maður veit ekki alltaf hvað maður er að fara að gera hverju sinni. Við þurft­um nátt­úru­lega að breyta okk­ar plön­um en ein okk­ar átti að vera á leið í brúðkaup í Banda­ríkj­un­um og ég stefndi á að koma heim til Íslands í sum­ar­frí en maður get­ur nátt­úru­lega ekki sagt nei við þessu. Það er bara ekki hægt,“ sagði Rakel í spjalli við mbl.is.

Rakel á fullu á sviðinu.

Bætti við:

„Þetta eru sex­tíu ár sem þeir eru að fagna sem hljóm­sveit og það er gam­an að geta tekið þátt í því. Þetta er merki­leg­ur áfangi fyr­ir þá sem hljóm­sveit og þeir hafa gert mikið fyr­ir tón­list­ar­sög­una. Þá er gam­an að fá að vera hluti af svona flott­um upp­hit­un­ar­hljóm­sveit­um; þarna er til dæm­is Phoe­be Bridgers sem er ein af mín­um upp­á­halds tón­list­ar­kon­um,“ seg­ir hún, en aðrir sem hita upp eru: The War On Drugs, Vista Kicks, JJ Rosa and Kelly McGr­ath.

Rakel er mik­ill aðdá­andi The Roll­ing Stones hún hringdi strax í afa sinn sem og færði hon­um stóru frétt­irn­ar.

„Ég hringdi í afa minn sem er frek­ar mik­ill aðdá­andi og hann hélt lengi vel að ég væri að grín­ast í hon­um. Það tók tölu­verðan tíma að sann­færa hann,“ seg­ir Rakel í léttum dúr.

Hljómsveitin Dream Wife var stofnuð árið 2014 af söngkonunni Rakel Mjöll Leifsdóttur, gítarleikaranum Alice Go og bassaleikaranum Bellu Podpadec, en þær kynntust í Listaháskóla í Brighton.

Það hef­ur verið nóg að gera hjá hljómsveitinni; bandið er nýkomið úr tón­leika­ferðalagi um Bret­land og hefur vakið mikla og verðskuldaða at­hygli.

„Við höf­um verið frek­ar heppn­ar og fengið að hita upp fyr­ir fjöl­marg­ar þekkt­ar hljóm­sveit­ir og lista­menn eins og til dæm­is Liam Gallag­her og Garbage,“ seg­ir Rakel að lokum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: