- Advertisement -

Ríkið borgi laun á almennum markaði

Bjarni Benediktsson segir skynsamamt að gera ráð fyrir lækkun tekjuskatts til að rýma fyrir betri kjörum í stað þess að hækka laun. Þingmaður varar hann við og segir kröfur vera um annað.

Bjarni Benediktsson: „Þetta er orðið gríðarlega flókið samspil margra bótakerfa við tekjuskattskerfið og full ástæða til að fara yfir það hvort við getum betur náð markmiðum okkar.“

„Við horfum til þeirrar stöðu að nafnlaunahækkanir á undanförnum árum hafa verið verulegar á sama tíma og gengi krónunnar hefur styrkst töluvert og þrengt hefur að samkeppnisstöðu útflutningsgreinanna,“ sagði Bjarni Benediktsson, í umræðu um efnahagsmál á Alþingi.“

Enn er kafist kjarabóta

„En á sama tíma hefur verið viðvarandi þó nokkuð mikil spenna á vinnumarkaði, þ.e. enn er krafist frekari kjarabóta. Við slíkar aðstæður og með það skattstig sem við erum með í tekjuskattinum finnst mér það vera skynsamleg ráðstöfun að gera ráð fyrir lækkun tekjuskatts til að rýma fyrir betri kjörum án þess að það þurfi allt að gerast í gegnum launaliðinn í kjarasamningum,“ sagði ráðherrann.

Endurskoðum bótakerfin

Bjarni vill endurskoða bótakerfin. „Þessu tengt er orðið brýnt að við tökum til endurskoðunar samspil tveggja þrepa tekjuskattskerfis með persónuafslætti við þessi stóru bótakerfi sem eru stærst, barnabótakerfið og síðan vaxtabótakerfið, og þeim kerfum til viðbótar ívilnanir í tekjuskatti í gegnum úttektir í sérseignarsparnaði; síðan ofan á þetta koma húsnæðisbætur vegna leigjenda. Það væri hægt að halda áfram og fara út í almannatryggingakerfið og benda á barnalífeyri þar. Þetta er orðið gríðarlega flókið samspil margra bótakerfa við tekjuskattskerfið og full ástæða til að fara yfir það hvort við getum betur náð markmiðum okkar.“

Birgir Þórarinsson:
„Þannig að ég er ekki viss um að skattalækkanir þær sem fjármálaráðherra boðar ráði úrslitum hvað það varðar.“

Vilja krónur, ekki prósentur

Áður hefur verið vitnað hér í þingmann Miðflokksins, Birgi Þórarinsson, og fund sem hann átti með nýjum leiðtogum í verkalýðshreyfingunni.

„Eins og ég nefndi áðan átti ég ágætt samtal við tvo verkalýðsforingja einna stærstu verkalýðshreyfinganna. Þar komu skýrt fram nýjar áherslur, þær róttæku breytingar sem við höfum heyrt af og séð. Maður upplifði þær greinilega þar. Það getur farið svo að kröfugerðin verði með þeim hætti þegar að því kemur að hér geti skapast óstöðugleiki. Vissulega skil ég þessar hugmyndir og það sem fram kom hjá hæstvirtum ráðherra varðandi það að eiga innlegg í þær kjaraviðræður. En það kom skýrt fram að helsta áherslumálið í þeim efnum hjá verkalýðsfélögum væru einmitt hækkanir í krónum talið, launaliðurinn, og vaxta- og verðtryggingarþátturinn,“ sagði Birgir.

„Þannig að ég er ekki viss um að skattalækkanir þær sem fjármálaráðherra boðar ráði úrslitum hvað það varðar,“ sagði hann.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: