- Advertisement -

Ríkisstjórnarflokkarnir tapa fylgi

Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:

Gunnar Smári.

Einkenni skoðanakannana undanfarna mánuði er hversu litlar fylgissveiflur eru hjá flokkunum. Í nýjustu MMR-könnuninni eru allar fylgisbreytingar innar skekkjumarka. Eins og aðrar kannanir sýnir þessi að ríkisstjórnarflokkarnir tapa fylgi á stjórnarsamstarfinu og það eru einkum Píratar og sósíalistar sem draga það fylgi til sín.
Frá kosningum hafa fylgisbreytingar verið þessar:

Ríkisstjórn:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sjálfstæðisflokkur: –3,3 prósentustig
Framsókn: –3,0 prósentustig
VG: –5,6 prósentustig
Samtals: –11,9 prósentustig
Stjórnarandstaða frá miðju:
Píratar: +5,2 prósentustig
Samfylkingin: +2,3 prósentustig
Viðreisn: +2,8 prósentustig
Samtals: +10,3 prósentustig
Stjórnarandstaða frá hægri:
Miðflokkurinn: –0,3 prósentustig
Flokkur fólksins: –2,7 prósentustig
Samtals: –3,0 prósentustig
Stjórnarandstaða frá vinstri, utan þings:
Sósíalistaflokkurinn: +4,4 prósentustig

Bæði sósíalistar og Flokkur fólksins voru eilítið undir 5% þröskuldinum í þessari könnun MMR, en báðir flokkar hafa sýnt þrautseigju í kosningum og getu til að stýra umræðunni í kosningabaráttu, svo reikna má með að þeim takist að lyfta sér yfir þennan þröskuld. Miðað við fylgi stjórnarflokkanna í þessari könnun gæfi samanlagt fylgi þeirra þeim 29 þingmenn, sex eru fallnir. En ef Flokkur fólksins og sósíalistar ná lágmarksfjölda þingmanna næðu ríkisstjórnarflokkarnir ekki nema 26 þingmönnum, níu færri en eru á þingi í dag.

Samanlagt fylgi fjórflokksins, leifanna af flokkakerfi siðustu aldar, var í kosningum 65,1% en mælist nú 55,5%. Í síðustu kosningunum fyrir Hrun, árið 2007, fengu þessir flokkar, DBSV, 89,5% atkvæða. Fjórflokkurinn hefur því misst frá sér 1/3 hluta kjósenda sinna. Frá Hruni að könnun MMR eru fylgisbreytingar þessar:

Tap:

Sjálfstæðisflokkurinn: –14,5 prósentustig
Samfylkingin: –12,4 prósentustig
Frjálslyndi flokkurinn: –7,3 prósentustig
Framsókn: –4,0 prósentustig
Íslandshreyfingin: –3,3 prósentustig
VG: –3,1 prósentustig

Ávinningur:

Píratar: +14,4 prósentustig
Miðflokkurinn: +10,6 prósentustig
Viðreisn: +9,5 prósentustig
Sósíalistaflokkurinn: +4,4 prósentustig
Flokkur fólksins: +4,2 prósentustig

Ef við reyndum að flokka þetta eftir litrófi hægri og vinstri gæti lærdómur hrunsins litið svona út:

Hliðar hægri (Frjálslyndir, Miðflokkur, Flokkur fólksins): +7,5 prósentustig
Stofnanahægri (Sjálfstæðisflokkur) : –14,5 prósentustig
Hægri samtals: –7,0 prósentustig
Mið hægri (Viðreisn): +9,5 prósentustig
Ný miðja (Píratar, Íslandshreyfingin) : +11,1 prósentustig
Gömul miðja (Framsókn): –4,0 prósentustig
Stofnana miðvinstri (Samfylking, VG): –15,5 prósentustig
Miðjan samtals: +1,1 prósentustig
Vinstri sósíalistar (Sósíalistaflokkurinn): +4,4 prósentustig

Þetta eru ekki miklar breytingar. Það lekur úr stofnanaflokkunum yfir til nýrra flokka á svipuðu róli. Það er of snemmt að segja til um hvort sósíalistum takist að reka niður pól til vinstri til að draga miðju stjórnmálanna frá mið-hægri-áherslum nýfrjálshyggjuáranna; enn sem komið er snúast stjórnmálin um það sama og fyrir Hrun. Það er helst að áhersla á virðingu alþingis, þingsköp og framkomu þingmanna hvern við annan hafi öðlast meiri sess. En að öðru leyti er umræðan sú sama; enn er talað um skatta sem ofbeldi, enn gengið út frá því að einkavæðing og útvistun spari almenningi fé og leiði til bestu hugsanlegrar niðurstöðu, enn lögð öll áhersla á að fjármagns- og fyrirtækjaeigendur hafi það sem allra best, lakar sett fólk er enn að mestu ósýnilegt og enn grotna innviðir og grunnkerfi samfélagsins niður.

Í stað þess að ræða grundvallarmál samfélagsins hafa stjórnmálin hverfst um Klausturmál að hausti og málþóf Miðflokksins að vori. Dónaskapur karlpunga átti sviðið á fyrri hluta þingvetrar og upptaks orkustefnu Evrópusambandsins seinni hlutann. Margt var ágætt sagt um þessi mál utan þings en fátt að viti innan þings, þar sem umræðurnar hafa í raun runnið niður í þær skotgrafir sem hafa myndast þar og sem liggja eftir víglínunni Sigmundur Davíð. Þingheimur hefur meira og minna geymt sér í því stríði. Það tryggir Sigmundi einhvers konar líf í íslenskum stjórnmálum en hefur í reynd engan annan tilgang. Andstaða hinnar svokölluðu frjálslyndu miðju við svona persónum hefur margsannað sig að skila engum árangri. Aldrei-Trump herferðin er árangursminnsta pólitíska herför síðari ára. Nú er herferðin Aldrei-Boris að tryggja Boris Johnson forsætisráðherrastólinn í Bretlandi. Tilraunir hinnar svokölluðu frjálslyndu miðju til að gera úr andstæðingum sínum óvin þjóðarinnar hefur alltaf mistekist. Ástæðan er sú að hin svokallaða frjálslynda miðja hefur engan hljómgrunn meðal kjósenda, í raun ekkert dagskrárvald. Staða þeirra byggist á inngróinni stöðu innan kerfisins og tengsla við valda- og áhrifafólk í stofnunum sem eru að missa stöðu sína í samfélaginu; fjölmiðlar, háskólar, almannasamtök og aðrar fallandi kirkjur lýðræðissamfélagsins á seinni hluta tuttugustu aldar. Það eru gagnrýnendur þessara kirkna sem hafa haft vald til að útmála tiltekin öfl andstæðinga fólksins, stundum með réttu en oft með röngu, en áhrif hinnar svokölluðu frjálslyndu miðju nær ekki út fyrir þessar valdablokkir.

Ef við skoðum fylgisbreytingar í könnunum MMR frá því fyrir Klausturmál þá eru þær þessar:

Tap:

Samfylkingin: –2,3 prósentustig
Flokkur fólksins: –1,9 prósentustig
Miðflokkurinn: –1,3 prósentustig
Framsókn: –1,2 prósentustig
Ávinningur:
Sósíalistar: +3,4 prósentustig
Píratar: +1,7 prósentustig
Sjáfstæðisflokkurinn: +1,3 prósentustig
Viðreisn: +0,9 prósentustig
VG: +0,4 prósentustig

Þetta eru ekki miklar breytingar, í flestum tilfellum engar, langt innan skekkjumarka. Kannski mætti stytta þetta niður í að Samfylkingin tapar fylgi en sósíalistar auka við sig.

Ef við skoðum breytingar frá því í mars, áður en þriðji orkupakkinn komst í almenna umræðu þá er staðan þessi:

Tap:

Framsókn: –3,4 prósentustig
Sjálfstæðisflokkurinn: –1,5 prósentustig
Flokkur fólksins: –0,5 prósentustig
VG: –0,1 prósentustig

Ávinningur:
Miðflokkurinn: +2,6 prósentustig
Sósíalistar: +1,9 prósentustig
Píratar: +0,8 prósentustig
Samfylkingin: +0,6 prósentustig
Viðreisn: +0,1 prósentustig

Þarna má ekki draga neinar ályktanir aðrar en að Framsókn tapar og Miðflokkurinn er heldur að vinna á.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: