- Advertisement -

Ríkisstjórnin byrjar á öfugum enda

„Útflutningsverðmæti af þorski eru skýrt dæmi um tölur sem allir ættu að skilja þar sem verðmætin hér eru hærri en í Noregi.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

„Eru það ekki almannahagsmunir að tryggja fyrirsjáanleika svo fyrirtæki geti gert áætlanir og fjárfest í tækjum, tólum og grænum lausnum? Eru það ekki almannahagsmunir að búa til verðmæt og vel borguð störf sem eru ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu? Eru það ekki almannahagsmunir að hægt sé að halda úti blómlegri byggð víðar en á þessum bletti þar sem við stöndum nú? Og eru það ekki almannahagsmunir að fjárfest sé í nýsköpun og hún blómstri og bæti enn frekar við verðmæti, tækifæri og störf?“

Þetta er tilvitnun í nýja þingræðu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur um veiðigjöldin.

„Við erum öll hér að gæta að hagsmunum almennings. Ég frábið mér því að þingmenn sem vilja ræða frumvarpið, gögnin og áhrifin séu ekki að hugsa um almannahag þegar þeir gagnrýna þetta frumvarp réttilega. Við erum sammála um mjög margt. Við erum sammála um að sjávarútvegurinn eigi að greiða veiðigjald en munurinn snýst einfaldlega um það að við viljum að ávinningurinn tryggi að það verði stóraukin verðmætasköpun, skýr áætlun fyrir Ísland um uppbyggingu atvinnugreina og nýsköpun og fleiri störf um land allt og sterkar byggðir. Við höfum einfaldlega þá staðföstu trú að ríkisstjórnarflokkarnir séu þarna að byrja á öfugum enda, hratt, og afleiðingarnar séu bæði óvissa fyrir byggðir landsins, starfsfólk, fyrirtæki og ríkissjóð,“ sagði Áslaug Arna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Verðmætin hér eru hærri en í Noregi.

Ögn síðar í ræðunni sagði hún frá eigin dagdraumum:

„Mig dreymir stundum um það, og það er kannski skrýtið, að í þessum sal fari fram stjórnmálaumræða sem snýst um það hvernig við getum bætt umhverfi fyrir fyrirtæki, stór og smá, af öllum gerðum og í öllum greinum. Mig dreymir um að við getum rætt hvernig við getum ýtt undir að fleiri slíkar sögur verði til, hvernig nýjar stoðir í hagkerfinu geta orðið til svo að eggin fari í fleiri körfur og hvernig við getum orðið tilbúin til að takast á við það sem reglulega gerist, óvænta atburði, en stækka líka okkar sterku og hefðbundnu útflutningsgreinar sem við þekkjum svo vel og erum að ræða um í dag.

Útflutningsverðmæti af þorski eru skýrt dæmi um tölur sem allir ættu að skilja þar sem verðmætin hér eru hærri en í Noregi, sem títt er talað um, og verða verulega hærri þegar tekjurnar af sölu Kerecis eru reiknaðar inn. Það er mikilvægt að við vitum hvernig þetta frumvarp hefur áhrif á fjárfestingu og nýsköpun. Mér er umhugað um að slíkar greiningar verði gerðar og þykir það eðlilegt miðað við þá uppbyggingu sem íslensk nýsköpun hefur verið síðustu ár sem má ekki stoppa.“

Það er merkilegt að Áslaug Arna bæti sölunni á Kerecis inn í umræðuna. Fyrirtækið verður varla selt á hverju ári. Næst lítur hún í baksýnisspegilinn:

Ég vona að núverandi ríkisstjórn…

„Ég setti mér það markmið, þegar ég tók við embætti nýsköpunarráðherra, að hugvitið yrði í fyllingu tímans okkar stærsta útflutningsgrein. Ég veit að hún sveiflast minna en þær útflutningsgreinar sem stóla á auðlindir sem við ráðum ekki yfir. Það myndi skila okkur fleiri tækifærum að stækka aðrar útflutningsgreinar, af því að nýsköpun, hvort sem er í ferðaþjónustu, sjávarútvegi, áliðnaði eða öðru, skapar lausnir sem skila okkur auknum verðmætum og aukinni framleiðni, ekki síst ef við þorum að fjárfesta í tækni og breytingum.

Ég vona að núverandi ríkisstjórn hafi slík áform fyrir íslenska þjóð, þori að vera stórhuga og hugsa lengra en eitt kjörtímabil eins og markmiðið sem ég setti mér í upphafi minna starfa — og við náðum gríðarlegum árangri þegar kemur að því hvaða tekjur við erum að fá. Eins og háttvirtur Dagur B. Eggertsson fór svo vel yfir hér varð hugvitið einu sinni stærra en sjávarútvegur. En við verðum fyrst og fremst að þora að nýta tækni og framtakssemi einstaklinga að fullu.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: