- Advertisement -

Ríkisstjórnin hafnaði tollfrelsi á fisk til Bretlands til varnar landbúnaðinum

„Tækifæri glataðist, þetta eina tækifæri sem Brexit fól í sér fyrir Ísland.“

Þorgerður Katrín Gunnardóttir:
Skjáskot: Kryddsíld.

„Þessari ríkisstjórn hefur verið tíðrætt um tækifæri fyrir Ísland sem felast í Brexit. Það kom á daginn að þau voru í rauninni ekki mörg en það gafst eitt raunverulegt tækifæri sem glataðist. Því tækifæri klúðraði ríkisstjórnin. Bretar buðu nefnilega í fríverslunarviðræður um tollfríðindi fyrir íslenskar sjávarafurðir umfram það sem við Íslendingar höfum haft í gegnum EES-samninginn við ESB. Bretar voru tilbúnir til þess að opna fyrir þær afurðir sem falla ekki lengur undir EES-samninginn og við höfum aukið núna á síðustu árum,“ sagði Þorgerðru Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi matvælaráðherra, á Alþingi í dag.

Þetta er merkilegt og hefur ekki áður komið fram.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Hvert átti síðan mótframlag Íslands að vera? Það snerist um að víkka út fríverslun með landbúnaðarvörur umfram tollfrjálsa kvóta byggða á viðskiptum undanfarinna ára. Bretar fóru sem sagt fram á svolitla stækkun á kvóta fyrir osta og kjöt inn á íslenska markaðinn og þeir buðu líka umtalsverða tollkvóta fyrir íslenskt undanrennuduft. Hins vegar settu hagsmunaaðilar í íslenskum landbúnaði þrýsting á stjórnvöld og bakkaði ríkisstjórn Íslands síðan út úr málinu,“ sagði formaður Viðreisnar.

„Tækifæri glataðist, þetta eina tækifæri sem Brexit fól í sér fyrir Ísland. Hver er síðan staðan í dag á íslensku samfélagi? Matvælaverð hefur hækkað verulega og er orðið einn stærsti útgjaldaliður heimilanna. Við sjáum að vörur sem eru undanþegnar samkeppnislögum og varðar með tollum og gjöldum leiða vagninn í þessum verðlagshækkunum. Við skulum hafa í huga að ríkisstjórnin hefur nokkur vopn í vopnabúrinu á svona dýrtíðartímum. Eitt af þeim er m.a. að lækka tolla, lækka vörugjöld, auka frelsi og auka samkeppni á markaði. Við sem trúum á markaðinn og trúum því að samkeppni geti leitt af sér breytingar til hagsbóta fyrir heimilin í landinu hljótum því að spyrja ríkisstjórnina hvort hún ætli ekki að gera eitthvað í því að reyna að lækka m.a. matvælaverð fyrir heimilin í landinu. Hluti af því er m.a. að auka vöruval og opna markaðinn. Þess vegna vil ég spyrja hæstvirtan ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að taka upp samninga að nýju við Breta og virkja að nýju tækifæri til að treysta stöðu neytenda, sjávarútvegs og ekki síður landbúnaðarins hér á Íslandi,“ sagði Þorgerður Katrín.

Þórdís K.R. Gylfadóttir:
„Þar af leiðandi var það mat manna á þeim tíma að fullt tollfrelsi fyrir sjávarafurðir hefði einfaldlega verið of dýru verði keypt.“

„Það er rétt að í upphafi viðræðna var það skýrt markmið að bæta markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir til Bretlands miðað við það sem gilti undir EES-samningnum en í þeim viðræðum var fljótt ljóst að Bretar gerðu á móti mjög miklar kröfur um markaðsaðgang fyrir landbúnaðarafurðir til Íslands,“ svaraði Þórdís K.R. Gylfadóttir utanríkisráðherra.

„Þar af leiðandi var það mat manna á þeim tíma að fullt tollfrelsi fyrir sjávarafurðir hefði einfaldlega verið of dýru verði keypt. Það er það sem við finnum fyrir þegar við erum í viðræðum um frekari markaðsaðgang. Það sama á nú reyndar við í okkar samtali við Evrópusambandið þar sem við höfum mjög markvisst og ríkulega gert kröfur um að fá betri og ríkari aðgang með okkar sjávarafurðir inn á Evrópumarkað. Staðan er núna þannig að Evrópusambandið hefur gert samninga við þriðju ríki sem eru betri heldur en við fáum í gegnum EES-samninginn. Það er því ekki þannig að það sé ekki almennt erfitt að ná þessu fram í viðræðum. Vissulega er í þeim tilfellum um að ræða ríki sem eru með margfalt minna magn af sjávarafurðum sem eru að koma inn á markað heldur en við erum með hér en það breytir því ekki að við höldum því sterkt á lofti að í gegnum EES-samninginn eigi að vera betra markaðsaðgengi fyrir okkar vörur,“ sagði varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

„Ég vil nefna það í lokin að það er ekki þannig að matvælaverð hafi ekki hækkað annars staðar. Í Þýskalandi hækkaði matvælaverð til að mynda, að mér skilst, um 20% á liðnu ári. Það er eitthvað sem fleiri en við á Íslandi standa frammi fyrir. En stutta svarið er að fullt tollfrelsi fyrir sjávarafurðir hefði verið of dýru verði keypt.“

Íslenskur landbúnaður herðir sig og styrkir.

„Við skulum hafa það á hreinu að hækkun matvælaverðs hér á Íslandi leiða þær vörur sem eru verndaðar af tollum; öllum tollmúrunum og öllum undanþágunum frá samkeppnislögum. Þær leiða verðlagshækkanir hér heima. Síðan talar hæstvirtur ráðherra um mat manna á þeim tíma. Mat hverra? Var haft samráð við utanríkismálanefnd um þetta? Nei. Var haft samráð við Neytendasamtökin um þetta? Nei. Var haft samráð við Samkeppniseftirlitið um að meta þennan samning og hvað hann hefði í för með sér fyrir íslenska neytendur og íslensk heimili? Nei. Það var ekki hlustað eða leitað til þeirra aðila sem varða allt samfélagið, bara var leitað til hagsmunaaðilanna sem snerta landbúnaðinn,“ sagði Þorgerður Katrín.

„Mér finnst miður að umsagna hafi ekki verið leitað víðar, enda hefur reynslan sýnt að þegar við opnum aðeins, hver er þá reynslan fyrir íslenskan landbúnað? Íslenskur landbúnaður herðir sig og styrkir. Við sjáum það í grænmetinu sem var aldrei sterkara en í dag þegar samkeppnin er jafn mikil og raun ber vitni. Við eigum að hafa trú á íslenskum landbúnaði hvað þetta varðar, en heildarsamhengi hlutanna, hagsmunir íslenskra heimila, var ekki tekið inn í þessa breytu ríkisstjórnarinnar sem féll enn og aftur í þá gildru að segja já við sérhagsmunaaðilum,“ sagði Þorgerður Katrín.

„…fulla tollfrelsið var einfaldlega of dýrt fyrir einmitt heildarhagsmuni samfélagsins.“

„Ég verð nú að segja að mér finnst háttvirtur þingmaður teikna upp full einfalda mynd af því, eins og það séu eingöngu við hér sem berjumst fyrir frekari tollum og viljum ekki að matvæli séu á besta mögulega verði á Íslandi, þegar um er að ræða samskipti við ríki sem sömuleiðis er með tolla. Það sama á auðvitað við um Evrópusambandið sem er með mikla tolla á matvörur okkar inn til þeirra. Þess vegna er það samningsatriði milli ríkja hvernig þessum málum er almennt háttað,“ sagði Þórdís K.R.

„Kvótar fyrir landbúnaðarafurðir eru þeir sömu og er að finna í bráðabirgðasamningi við Bretland sem tók gildi í lok árs 2020. Það er alveg þannig að Bretland er okkar helsta viðskiptaland þegar kemur að sölu á landbúnaðarvörum, lambakjöti, og þess vegna er mikilvægt að vernda þann markaðsaðgang. Eins og ég segi var markmiðið í upphafi viðræðna að bæta markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir en alltaf er það samningsatriði, í þessu tilfelli eins og öllum öðrum, og fulla tollfrelsið var einfaldlega of dýrt fyrir einmitt heildarhagsmuni samfélagsins.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: