- Advertisement -

Ríkisstjórnin heldur hvorki veðri né vindum

Sjálfstæðisflokkurinn er málpípa auðvaldsins sem heldur í alla spotta í þjóðfélaginu og ræður öllu leynt og ljóst.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

Ríkisstjórnin er vonlaus og heldur hvorki veðri né vindum. Það er saman hvert litið er. Hún fylgir í engu því sem meirihluti þjóðarinnar vill og spillingin er allsráðandi. Þjóðin vill ekki vaxandi ójöfnuð en misskipting hefur aukist. Þjóðin vill gott heilbrigðis-, og húsnæðiskerfi en þau mál batna ekkert þrátt fyrir háfleyg loforð. Nú stefnir í enn fleiri uppsagnir á Landspítalanum og enn þá er ótækt ástand í húsnæðismálum. Menntakerfið stendur ekki undir væntingum. Landbúnaðarkerfið er rotið og óréttlátt gagnvart bændum, en vinsamlegt milliliðunum.

Öryrkjar lepja dauðann úr skel og kannast ekkert við aukin framlög til sín.

Allt logar í spillingu í sjávarútvegsmálunum. Þjóðin vill sanngjarna dreifingu arðs af auðlindunum en veiðigjöld og kvótakerfi er hannað þannig að einungis örfáum kvótakóngum er gert að raka saman peningum og hirða arðinn. Þjóðin vill nýju stjórnarskrána. Á það hefur ekki verið hlustað. Stefna stjórnarinnar er aukin einkavæðing í innviðunum, en þjóðin vill það ekki. Það er bara eins og að pissa upp í vindinn að reyna að fá samþykkt nýtt fjölmiðlafrumvarp, því Sjálfstæðisflokkurinn ræður öllu.

Öryrkjar lepja dauðann úr skel og kannast ekkert við aukin framlög til sín, eins og ríkisstjórnin tönglast á. Hjá fátæku eftirlaunafólki er veskið alltaf jafn tómt. Ríkisstjórnin hefur montað sig voðalega mikið af lífskjarasamningnum sem reynist svo frekar rýr þegar allt er reiknað saman með verðhækkunum, bæði i einka-, og opinbera geiranum. Og svo þegar virkilega reynir á trausta innviði í veðri eins og búið er að vera á landinu, þá er allt í ólestri og ekki búið að sjá svo um að hægt sé að ráða við slíkar aðstæður. Sem er auðvitað fáránlegt í landi eins og Íslandi.

Sumir ráðherrar eru ákaflega verklitlir svo ekki sé meira sagt. Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hefur nánast ekki gert neitt nema það sem hentar stórútgerðarmönnum og vininum Þorsteini Má hjá Samherja. Veiðigjöldin voru lækkuð vegna þess m.a. að Þorsteinn Már og aðrir kvótagreifar sögðu Kristjáni Þór og Bjarna Ben að gera það, vegna þess að hagnaður myndi dragast saman. Sem var auðvitað tóm lygi, því hagnaður hefur verið mikill og háar arðgreiðslur til eiganda. Þá þurfti Þorsteinn Már og hinir kvótagreifarnir að kaupa ný skip, tól og tæki til að klassa upp hjá sér. Allt á kostað þjóðarinnar því veiðigjöldin voru lækkuð. Kristján Loftsson hjá Hval hf. og einn ríkasti maður á Íslandi smíðaði svo stefnu Íslands í hvalveiðimálum að sínum þörfum. Og Kristján Þór og Bjarni Ben sögðu bara já og amen.

Vinstri grænir hafa svikið nánast allt sem þeir hafa lofað.

Vinstri grænir hafa svikið nánast allt sem þeir hafa lofað. Framsóknarflokkurinn veit ekki hvort hann er að koma eða fara. Formaðurinn Sigurður Ingi þykist ekkert kannast við mútur eða spillingu, þó hann hafi sjálfur tekið við formannsembætti flokksins eftir Wintrisspillingu Sigmundar Davíðs sem átti peninga á aflandseyjum. Sjálfstæðisflokkurinn er málpípa auðvaldsins sem heldur í alla spotta í þjóðfélaginu og ræður öllu leynt og ljóst.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekkert eins og hann var á síðustu öld því hann hefur færst æ meira til hægri, vill ekkert gera fyrir þá verst settu, lítur á öryrkja sem glæpamenn sem gætu verið að ljúga til um veikindi og svíkja út bætur. Bjarni Ben er ekkert að fela þetta og segist sofa vel þó einhverjir raki saman peningum, jafnvel þótt það sé gert með því að hirða arðinn af auðlindum þjóðarinnar. Hann er algjörlega harðsvíraður hægri maður og virðist stoltur af því. Sama má segja um hjörðina hans í þingflokknum sem virðist einhvern veginn dingla utan á honum eins og gamalt og lúið jólaskraut.

Ég vona svo innilega að þjóðin fái það í nýársgjöf að ríkisstjórnin fari frá völdum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: