- Advertisement -

Ríkisstjórnin leyfir græðgispungum að spila Matador um allt það sem okkar er

„Við fordæmum stjórnvöld sem sjá aldrei úr augunum út öðruvísi heldur en að ráðast á almenning.“

Inga Sæland.

Alþingi „Hverjir eru það sem eru aflögufærir? Er það íslenskur almenningur? Eru það íslensku heimilin eða litlu og meðalstóru fyrirtækin, þau sem eru í rauninni að bugast undan byrðinni sem er verið að leggja á þau núna í því ófremdarástandi sem ríkir í efnahagskerfinu? Að sjálfsögðu ekki,“ sagði Inga Sæland á Alþingi þar sem rædd voru fjáraukalög.

„Þeir sem eru aflögufærir eru þeir sem vita ekki hvað þeir eiga að gera við peningana sína, sem eru búnir að fjárfesta í nánast öllu, bara landið og miðin eru einfaldlega komin í þeirra eigu og þeir reka það hér, eiga orðið meira og minna allt í samfélaginu. Það er orðið dapurt að horfa upp á það hvernig þessi ríkisstjórn er hreinlega að spila Matador, leyfir græðgispungum að spila Matador um allt það sem okkar er.“

Ögn síðar í ræðunni sagði Inga:

Afborgun af láninu mínu fór úr 184.000 kr. á mánuði í 460.000 kr. á mánuði.

„Og það að kalla endalaust eftir því, ef eitthvað gengur vel, að við eigum að losa okkur við það og selja það fær mig til að velta því t.d. fyrir mér þegar leigt var húsnæði undir landlæknisembættið, minnir mig, á Seltjarnarnesi. Það var gerður 25 ára óafturkræfur leigusamningur við einhvern vin eða vandamann. Er það svoleiðis sem við viljum hafa það? Viljum við frekar leigja einhverja fasteign fyrir starfsemi ríkisins fyrir hundruð milljóna á ári eða viljum við borga þessi hundruð milljóna einu sinni og eignast þetta sjálf og reka sjálf og vera sjálfbær? Flokkur fólksins vill það skilyrðislaust. Við viljum það.“

Þetta var síður en svo allt:

„Við fordæmum stjórnvöld sem sjá aldrei úr augunum út öðruvísi heldur en að ráðast á almenning, heimilin í landinu, lítil og meðalstór fyrirtæki og setja allar byrðarnar þangað. Við í Flokki fólksins segjum einfaldlega: Sækjum fjármagnið þar sem það er fyrir og hikum ekki við það. 30 milljarða í bankaskatt strax, herra forseti. Það er það sem Flokkur fólksins hefur kallað eftir og hefur mælt fyrir frumvarpi þess efnis.“

Varðandi hvað þrengir að fólki rók Inga Sæland dæmi úr eigin lífi:

„Það eru ýmis spil til í spilastokknum önnur en þau að ráðast að innviðunum og ráðast að þeim sem eiga um sárt að binda og ná ekki endum saman og vita ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér í öllu þessu ótrúlega okurvaxtasamfélagi sem við búum við í dag þar sem fólk hefur í rauninni á einni nóttu lent í snjóflóði sem verður þess valdandi að það verður margföldun á afborgunum af lánum þess. Bara sem dæmi fór afborgun af láninu mínu úr 184.000 kr. á mánuði í 460.000 kr. á mánuði. Það var óverðtryggt lán með föstum breytilegum vöxtum. Ég get staðið undir því í einhvern tíma en ég get alveg staðið við það og sagt það hér og nú: Það þarf að vera með ansi góðar tekjur ef fólk á ekki að missa heimili sín í þeirri stefnu sem er rekin af þessari vanhæfu ríkisstjórn.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: