- Advertisement -

„Ríkisstjórnin þarf líka að gera sitt“

„Ríkisstjórnin ber líka ábyrgð og hún er ekki mjög lítil um þessar mundir.“

Logi Einarsson.

Alþingi „Eftir ábyrga og skynsamlega nálgun aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninga fyrr í mánuðinum er óhætt að segja að augu mjög margra hafi verið límd á seðlabankastjóra í morgun þegar tilkynnt var um mögulegar breytingar á stýrivöxtum,“ sagði Logi Einarsson á Alþingi fyrr í dag.

„Peningastefnunefndin segir að óvissa hafi vissulega minnkað við undirritun kjarasamninga en hefur greinilega þótt nauðsynlegt að bíða og sjá næsta leik ríkisstjórnarinnar áður en skref eru stigin til lækkunar, lækkunar sem heimili og fyrirtæki landsins bíða eftir með óþreyju. Seðlabankinn bendir á ríkisstjórnina og segir að hætt sé við að aðgerðir í ríkisfjármálum auki á eftirspurn og verðbólguþrýsting þannig að launaskrið verði meira en ella. Samfylkingin hefur ítrekað bent á einmitt þetta,“ sagði Logi og hélt áfram:

„Þó að við höfum vissulega hrósað aðilum vinnumarkaðarins fyrir ábyrga kjarasamninga þá höfum við einnig talað fyrir því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir þeim verði fjármagnaðar. Þetta hefur verið lykilatriði í okkar málflutningi og í þeim kjarapakka sem við lögðum fram við afgreiðslu fjárlaga. Ríkisstjórnin valdi aðra leið en við lögðum til og bætti við 20 milljörðum við útgjöldin á ársgrundvelli án þess að fjármagna þær aðgerðir með auknum tekjum eða minni útgjöldum annars staðar. Hættan er að þetta dragi úr jákvæðum áhrifum kjarasamninga á verðbólgu og vexti.“

„Vonandi skapast sem fyrst aðstæður til að hefja lækkun vaxta því að það er lífsnauðsynlegt fyrir þúsundir heimila í landinu. En nú hafa aðilar vinnumarkaðarins gert sitt og ríkisstjórnin þarf líka að gera sitt og vera ábyrgari í stjórn ríkisfjármála.

Ríkisstjórnin ber líka ábyrgð og hún er ekki mjög lítil um þessar mundir.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: