- Advertisement -

Salvini þrýstir á um kosningar á Ítalíu: Fasísk ríkisstjórn í kortunum

Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:

Gunnar Smári.

Matteo Salvini, leiðtogi Norðurbandalagsins á Ítalíu, hefur nú slitið stjórnarsamstarfi við Fimm stjörnu hreyfinguna og krefst kosninga í haust. Markmiðið er að innbyrða mikla fylgisaukningu Norðurbandalagsins frá kosningunum snemma árs 2018 og gera Norðurbandlagið að drottnandi afli í ítölskum stjórnmálum. Norðurbandalagið er popúlískur hægriflokkur með grimma innflytjendastefnu og vilja til hörku, úlfúðar og upplausnar. Salvini var fyrstur evrópskra stjórnmálaforingja til að ganga til liðs við Steve Bannon, fyrrum stjórnmálaráðgjafa Donald Trump, en Bannon hefur þá pólitísku sýn að nauðsynlegt sé að brjóta niður allar helstu stofnanir samfélagsins svo hægt sé að byggja upp skárra samfélag í anda samfélagssýnar alt-right, hins nýja létt-fasíska hægris, sem víða hefur fengið byr í seglin eftir hrun nýfrjálshyggjunnar 2008 og getuleysis vinstrisins til að vísa veginn til framtíðar; um hvað samfélagssáttmáli næstu áratuga eigi að snúast nú þegar samfélagssáttmáli nýfrjálshyggjunnar hefur verið afhjúpaður sem verkfæri hinna ríku til að ræna samfélögin.

Enginn annar ný-hægri flokkur Evrópu nýtur viðlíka stuðnings og Norðurbandalag Salvini á Ítalíu. Hann mælist með um 38% í könnunum, meira fylgi en Nasistaflokkur Hitlers eða fasistaflokkur Mussolini fengu í frjálsum kosningum áður en þeir notuðu kosningasigra sína til að brjóta niður hið lýðræðislega samfélag og taka upp fasisma. Aðrir ný-hægri flokkar í Vestur-Evrópu mælast í dag með um 10-25% fylgi. Frelsisflokkurinn í Austurríki fékk 26% í kosningunum 2017 en mælist í dag með um 20% í könnunum fyrir kosningarnar í september eftir nokkur áföll vegna hneykslismála, Front National í Frakklandi fékk 13% fylgi í þingkosningunum 2017 og Flæmska bandalagið í Belgíu 12% í kosningunum í maí. En þessir þrír; Frelsisflokkurinn, Front National og Flæmska bandalagið; eru burðarásinn í þingflokki Salvini á Evrópuþinginu ásamt Norðurbandlaginu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hann mælist með um 38% í könnunum, meira fylgi en Nasistaflokkur Hitlers.

Á Norðurlöndum er staðan sú að Danski þjóðarflokkurinn missti mikið fylgi í kosningunum í vor og fékk aðeins tæp 9% atkvæða, Sannir Finnar fengu á sama tíma rúm 17% og stóðu í stað, Sænskir demókratar fengu tæp 18% í kosningunum 2018 og bættu eilítið við sig en hafa haldist á þessum slóðum í könnunum og Framfaraflokkurinn norski fékk rúm 15% í kosningunum 2017, tók sæti í ríkisstjórn og hefur síðan verið að missa fylgi, mælist nú með um og undir 10% í könnunum, allt niður undir 7%. Á Íslandi fengu Miðflokkur og Flokkur fólksins samanlagt tæplega 18% fylgi en mælast nú með tæplega 16%.

Í grísku kosningunum í vor tapaði Gullin dögun fylgi og fékk aðeins 3% atkvæða og aðrir og nýrri últra hægri flokkar náðu engu flugi. Á Spáni var Vox, harður hægri flokkur með rætur í Andalúsíu, hins vegar á siglingu; fékk rúm 10% í kosningunum í vor en hefur ekki aukið fylgi sitt í könnunum síðan þá svo ekki er hægt að gera ráð fyrir áframhaldandi uppsveiflu fyrir næstu kosningar á Spáni, sem gætu orðið strax í haust. Í Portúgal hafa vinstri menn öll undirtök í stjórnmálum, stjórna umræðunni og landinu, og últra-hægrið hefur ekki náð neinni fótfestu. Portúgal væri undantekningin sem sannar regluna, ef sú skrítna regla væri til. Í samanburði við hin Miðjarðarhafslöndin er Norðurbandalagið því yfirnáttúrulegur risi í samanburði við aðra alt-right flokka.

Í Bretlandi mælist Brexit-flokkur Nigel Farage með álíka fylgi og Verkamannaflokkurinn, um 20%.

Í Hollandi fékk Frelsisflokkur Geert Wilders 13% atkvæða í kosningum í fulltrúadeild þingsins 2017, vann lítillega á en ekkert í takt við það sem spáð hafði verið. Flokkurinn mælist nú með um 10% fylgi í könnunum. Í Hollandi er hins vegar nýr hægriflokkur á flugi, Lýðræðisvettvangurinn, sem mælist nú með um og yfir 20% fylgi fyrir kosningar til fulltrúadeildarinnar 2023 en fékk aðeins um 2% í kosningunum 2017. Samanlagt mælist fylgi þessara tveggja ný-hægri flokka því um 30%. Ný-hægrið glímir við vinstrisinnaða Græningja um forystuna í stjórnmálaumræðunni í Hollandi, á meðan að hefðbundna hægrið situr í ríkisstjórn og stjórnar landinu.

Í Þýskalandi fékk Alternative für Deutschland tæplega 13% í kosningunum 2017 og mælist nú á svipuðum slóðum. Tíðindi þýskra stjórnmála er að Græningjar hafa vaxið frá tæplega 9% fylgi í kosningunum upp í kringum 25% í könnunum, hafa étið upp fylgi nánast helminginn af fylgi Sósíaldemókrata og kroppað í fylgi Vinstri flokksins, Frjálsra demókrata og kristilegra demókrata. Í Bretlandi mælist Brexit-flokkur Nigel Farage með álíka fylgi og Verkamannaflokkurinn, um 20%.

Af þessu yfirliti má sjá að staða Matteo Salvini og Norðurbandalagsins er einstök í Evrópu. Norðurbandalagið fékk 17,4% í kosningunum 2017 en mælist nú með um 38%, hefur meira en tvöfaldað fylgi sitt. Þegar Salvini myndaði stjórn með Fimm stjörnu hreyfingunni var Fimm stjörnu hreyfingin nánast með tvöfalt fylgi á við Norðurbandalagið en samkvæmt könnunum er hreyfingin nú aðeins með helminginn af fylgi Norðurbandalagsins. Eftir myndun stjórnarinnar var Salvini með mun minna fylgi en mun meiri áhrif. Nú er hann bæði með miklum meiri áhrif og miklu meira fylgi. Hægri flokkarnir sem fengu aðeins tæp 36% í kosningunum mælast nú samanlagt með um 52% fylgi sem myndi tryggja þeim öruggan þingmeirihluta. Ef niðurstöður kosninga verður í takt við kannanir erum við að fara að sjá ríkisstjórn á Ítalíu undir forystu Salvini með últra hægriflokkinn Bræður Ítalíu og flokk Silvio Berlusconi, Áfram Ítalía, sem hjálpardekk. Veikt mótvægi við þessa stjórn væri Fimm stjörnu hreyfingin og Sósíaldemókratar, sem kallast nú Lýðræðisflokkurinn, flokkar sem eru meiri andstæðingar en samherjar. Aðrir flokkar skipta litlu máli; ítalskir kommúnistar sem voru áhrifamikið stjórnmálaafl öll eftirstríðsárin eru týndir og tröllum gefnir, græningjar hafa ekki náð fótfestu og Lýðræðisflokkurinn, sem er einskonar bræðingur af frjálslyndri miðju að hætti Viðreisnar og sósíaldemókratíu með nýfrjálshyggjubotni að hætti Samfylkingar, mælist aðeins með um 22% í könnunum, ósköp svipað og Viðreisn og Samfylkingin hafa samanlagt á Íslandi. Og þetta er vægi stuðnings við Evrópusambandið á Ítalíu; aðrir flokkar eru skiptískir á Evrópusambandið eftir langvarandi stöðnunar ítalsk efnahagslífs í kjölfar upptöku evru og endalausra árekstra ítalskra stjórnvalda og boðvaldsins í Brussel, sem bannar Ítölum að örva efnahagslífið með auknum ríkisútgjöldum eða verja niðurbrot velferðarkerfis og hrörnun innviða.


Það verður erfiðara fyrir Evrópusambandið að þröngva Ítali til hlýðni.

Stjórnmálaástandið á Ítalíu er fyrst og fremst afleiðing af þeirri togstreitu sem evran og kvaðir vegna hennar á stjórn ríkisfjármála. Á sama tíma og Þýskaland hefur eflst eftir upptöku evru er Ítalía eitt af þeim löndum sem hefur ekkert uppskorið. Og Ítalía er stærst þeirra landa. Á sama hátt og efnahags- og skuldavandi Ítalíu hefur mun meiri áhrif á Evrópu alla en sambærilegur vandi Grikklands, þannig munu stjórnmálahræringar Ítala hafa miklum mun meiri áhrif en stjórnmálasviptingar í Grikklandi. Ítalía er stórt hagkerfi, eins og hálft Þýskaland á meðan Grikkland er aðeins einn átjándi hluti Þýskalands. Uppreisn ítalskra kjósenda gagnvart Brussel mun því verða áhrifameiri en uppreisn Grikkja. Brussel tókst að berja uppreisn Grikkja niður og þrönga vinstri ríkisstjórn Syriza til að kyngja kröfum um Evrópusambandsins um niðurskurð opinberrar þjónustu, sölu ríkiseigna og skerðingu á launum og réttindum almennings. Það verður erfiðara fyrir Evrópusambandið að þröngva Ítali til hlýðni. Og ekki hjálpar til að eftir Brexit hefur suðrið styrkst hlutfallslega innan sambandsins.

Stundum er sagt að það sem gerist á Ítalíu muni síðar gerast í öðrum löndum Vestur-Evrópu; að stjórnmálaþróunin þar muni endurtaka sig síðar víðar um Evrópu. Flokkakerfi eftirstríðsáranna leystist fyrst upp á Ítalíu og sú saga er að endurtaka sig í Frakklandi og á Spáni, byrjuð að myndast í Bretlandi og Þýskalandi. Miðað við skoðanakannanir virðist ætla að verða til ástand sem helst má líkja við stjórnmálaástand Austur-Evrópu eftir margra ára samfélagslega upplausn nýfrjálshyggjunnar í kjölfar fall Sovétríkjanna og vald þeirra yfir löndum Austur-Evrópu. Í Póllandi fékk ný-hægri flokkurinn Lög og réttlæti tæp 38% atkvæða í kosningunum 2015 og mælist nú með sambærilegt fylgi í aðdraganda kosninga sem verða í haust. Í kosningum í fyrra fékk Fidesz-flokkur Viktor Orbán rúm 49% atkvæða og mælist nú yfirleitt með meira en helmings fylgi í könnunum. Í öðrum löndum Austur-Evrópu má sjá átök milli flokka sem líkjast meira Norðurbandalaginu annars vegar og Fimm stjörnu hreyfingarinnar hins vegar en átökum hefðbundnari flokka. Í Úkraínu var gamanleikarinn Volodymyr Zelensky kosinn forseti fyrr á þessu ári og flokkur hans fékk 43% atkvæða í þingkosningum.

Þau sem ekki vilja sjá þessa þróun ná yfir Evrópu alla geta kannski vonað að það sannist í haust á Ítalíu sem hefur nánast verið reglan í öllum kosningum á Vesturlöndum frá Hruni; sá sem telur sig eiga inni kosningasigur fær hann ekki. Stjórnmálaástandið er svo kvikt að stutt kosningabarátta getur svipt þá sigrunum sem töldu hann í hendi og búið til óvænta sigurvegara. Vonandi verður það raunin á Ítalíu. Vonandi mun fasisminn ekki breiðast út þaðan, eins og hann gerði fyrir tæpum hundrað árum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: