- Advertisement -

Samfélagslegur matjurtagarður

Í sumar var starfræktur samfélagsrekinn matjurtargarður í útjaðri grasagarðsins í Laugardal. Tilraunaverkefnið sem heitir Laugargarður gengur út á að nota almenningsrými borgarinnar undir matjurtaræktun fyrir hverfisbúa og skapa vettvang fyrir ýmsar uppákomur og fræðslu sem tengist sjálfbærni og matarmenningu.

Það voru þau Brynja Þóra Guðnadóttir, Auður Inez Sellgren, Andri Andrésson og Niki Jiao sem stóðu fyrir starfseminni í sumar og fengu þau íbúa í Laugardal til liðs við sig. Í Laugargarði voru t.d ræktaðar kartöflur, rótargrænmeti, jarðarber, te- og kryddjurtir. Einungis er notast við lífrænan áburð og er ræktunin í anda vistræktar. Brynja segir að hópinnn hafi langað að prófa  nýtt form, þar sem fólk gæti hjálpast að við ræktun matjurta. Garðurinn henti fólki sem hafi áhuga á ræktun en lítinn tíma til að sinna henni. Þó hafi þau tekið eftir því að fólk sem sé virkir ræktendur hafi líka áhuga á að taka þátt í sameiginlegri ræktun. Brynja  segir viðbrögð hafa verið góð og Reykjavíkurborg hafi stutt verkefnið. Margir hafi líka sýnt áhuga á að bætast  í hópinn fyrir næsta ræktunartímabil.

,,Við stóðum fyrir sáningardegi, plöntuskiptidegi og bændamarkaði sem var vel sóttur og það sýnir okkur að fólk hefur mikinn áhuga á fersku grænmeti úr sínu nánasta umhverfi.“ Hún segir að leikskólar á svæðinu hafi t.d fengið að kynnast starfsemi Laugargarðs í sumar og hafi þeir verið mjög áhugasamir um að koma meira að garðinum fyrir næsta ræktunartímabil.

Aðstandendur garðsins unnu skýrslu í lok sumars um verkefnið  sem má finna á heimasíðu Laugargarðs.

Sjá sömuleiðis á vef Náttúrunnar.

 

 

 

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: